Erlent

Vinnur að söngleik um Múhameðsteikningamál

Lars Vilks sætir líflátshótunum vegna teikninga sinna af Múhameð spámanni.
Lars Vilks sætir líflátshótunum vegna teikninga sinna af Múhameð spámanni. MYND/Nyhedsavisen

Sænski listamaðurinn Lars Vilks, sem komst í fréttirnar á dögunum eftir að sænskt dagblað birti myndir hans af Múhameð spámanni í hundslíki, vinnur nú að söngleik um mál sitt en hann hefur sætt líflátshótunum vegna myndanna þar sem múslímar líta á þær sem guðlast.

Í samtali við norska blaðið Aftenposten greinir hann frá því að hann hafi fengið allmargar hótanir víða að úr heiminum, en sú mest áberandi kom frá leiðtoga al-Qaida í Írak sem sett hefur hundrað þúsund dollara til höfuðs Vilks.

Listmaðurinn segir að hin miklu viðbrögð manna séu í raun listaverk hans en ekki Múhameðsteikningarnar. Íransforseti sé leikarinn í verki hans og leiki hlutverk sitt vel en auk hans spili al-Qaida stórt hlutverk í listaverkinu.

Vilks viðurkennir þó að líflátshótanirnar séu ekki sérlega skemmtilegar en þær eru taldar svo alvarlegar að hann býr á leynilegum stað í Svíþjóð og nýtur verndar sænsku lögreglunnar.

Um söngleikinn segir hann að ekki sé víst að eitthvert leikhús þori að setja hann upp. „Þá verðum við að finna aðrar leiðir til að koma honum á framfæri," segir Vilks í samtali við Aftenposten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×