Erlent

Byssurnar tala og leiðtogar deila í Írak

Þórir Guðmundsson skrifar

Á fjórða tug manna hefur látið lífið í ofbeldisverkum í Írak nú um helgina, þegar múslimar um allan heim fagna lokum Ramadan föstumánaðarins.

En á meðan blóðbaðið virðist engan endi ætla að taka deila leiðtogar Íraka um pólitíska framtíð landsins.

Enn einu sinni þurfti að hreinsa til eftir hryðjuverk í Bagdad í dag. Í morgun létu níu manns lífið, þar af tveir drengir níu og fjórtán ára. Fólkið var að fara í smárútu að helgidómi sjía-múslima til þess að halda upp á það að nú er föstumánuðurinn Ramadan á enda.

Í gær dóu sautján manns í svipuðu sprengjutilræði, karlar, konur og börn. Norðvestur af Bagdad féllu fimmtán óbreyttir borgarar í árás bandaríska hersins á fimmtudagskvöld.

Á meðan byssurnar tala, deila leiðtogar hinna ýmsu hópa um framtíðarfyrirkomulag í Írak. Einn af helstu leiðtogum sjía segist nú vilja að landinu verði skipt upp á milli þjóðarhópanna þriggja, sjía, súnnía og kúrda.

Moqtada al-Sadr, klerkurinn valdamikli, þvertók fyrir það í dag og sagði að með því væri verið að láta undan þrýstingi frá Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×