Erlent

Hundruð látinna

Jeppi ekur eftir götu í höfuðborg Norður-Kóreu, Pjongjang í gær. Rigningar hafa orsakað mikla vatnavexti í ám landsins síðustu daga og hefur vatnselgurinn náð allt að sextíu sentímetra hæð.
Jeppi ekur eftir götu í höfuðborg Norður-Kóreu, Pjongjang í gær. Rigningar hafa orsakað mikla vatnavexti í ám landsins síðustu daga og hefur vatnselgurinn náð allt að sextíu sentímetra hæð. MYND/Ap

Meira en tvö hundruð manns eru látnir eða er saknað í Norður-Kóreu en flóð hafa verið í landinu síðustu daga eftir miklar rigningar að undanförnu. Terje Lysholm, starfsmaður Rauða krossins sem er staddur í landinu, neitaði að geta sér til um það í samtali við AP-fréttastofuna hvort mannfallið gæti jafnvel verið enn meira. Yfirvöld í Norður-Kóreu sögðu hins vegar frá því í gær að „hundruð manna væru látnir eða væri saknað,“ í landinu.

Lysholm segir að víða í landinu hafi vatnselgurinn náð allt að sextíu sentimetrum og að flóðin séu þau verstu í landinu í áratug. Að sögn Lysholms hafa rúmlega þrjátíu þúsund fjölskyldur í Norður-Kóreu misst heimili sín, og um sextíu þúsund fjölskyldur orðið fyrir skaða, af völdum flóðanna. Lysholm segir að auk þess hafi flóðin skemmt um hundrað þúsund hektara af ræktarlandi sem muni koma niður á möguleikum landsmanna til að brauðfæða sig. Að sögn stjórnvalda í landinu hafa flóðin valdið miklum skaða á mannvirkjum í landinu og eru helstu járnbrautir, vegir og brýr ónýtar.

Síðasta sumar voru einnig mikil flóð í landinu og hafa stjórnvöld í höfuðborginni Pjongjang aldrei gefið upp hversu margir létu lífið, en talið er að það hafi verið á milli átta og níu hundruð manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×