Erlent

Var skipað að skjóta þá sem flýðu land

Þess var minnst í Berlín í gær að 46 ár eru liðin frá því að byrjað var að reisa Berlínarmúrinn. Um 1.100 manns féllu við að reyna að flýja frá Austur-Þýskalandi til vestursins á dögum kalda stríðsins.
Þess var minnst í Berlín í gær að 46 ár eru liðin frá því að byrjað var að reisa Berlínarmúrinn. Um 1.100 manns féllu við að reyna að flýja frá Austur-Þýskalandi til vestursins á dögum kalda stríðsins. MYND/ap

Austurþýskir landamæra­verðir fengu skipun um að skjóta þá borgara sem reyndu að flýja frá Austur-Þýskalandi til Vestur-Þýskalands á dögum kalda stríðs­ins. Þetta kemur fram í skjali frá austur-þýsku leyniþjónustunni Stasi sem fannst nýlega. Fyrir sameiningu landanna árið 1990 voru 1.100 manns drepnir við að reyna að flýja frá Austur-Þýska­landi til Vestur-Þýskalands.

Flestir Austur-Þjóðverjanna voru drepnir þegar þeir reyndu að flýja landið eftir að Berlínarmúrinn var reistur árið 1961 þar til hann féll í nóvember árið 1989. Þess var minnst í Þýskalandi í gær að 46 ár eru liðin frá því að byrjað var að reisa múrinn.

Þrátt fyrir að vitað hafi verið að austur-þýskir landamæraverðir hefðu í algerri neyð mátt grípa til ofbeldis gegn þeim borgurum sem reyndu að flýja landið þá er skipun Stasi afdráttarlausari. „Ekki hika við að skjóta þá sem reyna að flýja land, þetta á einnig við um konur og börn,“ segir í skjalinu, sem er frá árinu 1973. Hubertus Knabe, yfirmaður Stasi-fangelsissafnsins í Berlín, segir að skipunin sé í reynd „leyfi til að drepa“ og að slík skipun hafi ekki fundist áður. Annar sagnfræðingur segir að fundur skjalsins bendi til að enn eigi eftir að rannsaka sögu Austur-Þýskalands til hlítar.

„Fundur þessa skjals sýnir okkur fram á það á hrikalegan hátt hversu ómannúðlegt kerfið í Austur-Þýskalandi var,“ segir Ronald Pofalla, aðalritari Kristilega demókrataflokks Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Pofalla segir að þegar þess er minnst að 46 ár eru liðin frá því byrjað var byggja Berlínarmúrinn þá sé fundur skjalsins áminning fyrir þá sem vilja gleyma því ofbeldi sem kommúnistastjórnin í Austur-Þýskalandi framdi.

Hundruð fyrrverandi austur-þýskra landamæravarða hafa verið dæmdir fyrir að skjóta fólk sem reyndi að flýja til Vestur-Þýskalands á dögum kalda stríðs­ins, þó að flestir þeirra hafi fengið skilorðsbundna fangelsis­dóma. Knabe segir að ef komist verði að því hverjir gáfu þessa skipun og fylgdu henni eftir þurfi að sækja þá til saka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×