Erlent

Fyrsti fundurinn í sjö ár

Maður í Suður-Kóreu fylgist með sjónvarpsfréttum þar sem sjá má Kim Dae-Jung, fyrrverandi forseta Suður-Kóreu, og Kim Jong-Il, leiðtoga Norður-Kóreu, á leiðtogafundi þeirra fyrir sjö árum.
Maður í Suður-Kóreu fylgist með sjónvarpsfréttum þar sem sjá má Kim Dae-Jung, fyrrverandi forseta Suður-Kóreu, og Kim Jong-Il, leiðtoga Norður-Kóreu, á leiðtogafundi þeirra fyrir sjö árum. MYND/AFP

Reikna má með því að Kim Jong-Il, leiðtogi Norður-Kóreu, tjaldi öllu til þegar hann tekur á móti Roh Moo-Hyun, forseta Suður-Kóreu, nú í lok mánaðarins. Þúsundir aðdáenda leiðtogans í norðrinu verða kvadd­ir til að standa meðfram götum höfuðborgarinnar Pyong­yang og fagna gestinum.

Í gær var skýrt frá því að leiðtogar ríkjanna myndu hittast dagana 28. til 30. ágúst næstkom­andi. Þetta verður annar leiðtoga­fundur Norður- og Suður-Kóreu frá upphafi og það eitt gerir það að verkum að fundurinn telst sögulegur.

Ólíklegt þykir reyndar að áþreifan­legar niðurstöður fáist úr viðræðum leiðtoganna, en í það minnsta mun fundurinn hafa tilfinningaleg áhrif á íbúa beggja ríkjanna.

Fyrri leiðtogafundurinn var árið 2000, en þá tók Kim Jong-Il á móti Kim Dae-Jung, þáverandi forseta Suður-Kórea. Sá fundur skilaði þeim árangri helst að þúsundir aldraðra Kóreumanna fengu að hitta ættingja sína hinum megin landamæranna eftir nærri hálfrar aldar aðskilnað.

Samskipti Norður-Kóreu við umheiminn þykja hafa skánað nokkuð á síðustu vikum og mánuðum, og þessi væntanlegi leiðtogafundur þykir koma í beinu framhaldi af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×