Erlent

Ungmenni festust í rússíbana í Stokkhólmi

MYND/AFP

Þrjú ungmenni festust í rússíbananum Villtu músinni í tívolíinu Gröna Lund í Stokkhólmi í kvöld. Þetta kemur fram á fréttavef síðdeigisblaðsins Aftonbladet. Mjög vindasamt var á svæðinu og varð sterk vindhviða sem kom á móti vagninum til þess að hann stöðvaðist. Aðrir vagnar sem á eftir komu stöðvuðust sjálfkrafa við þetta og komst fólkið úr þeim af eigin rammleik. Þrjú ungmenni sem voru í fyrsta vagninum sátu hins vegar föst 13 metra frá jörðu í 30 mínútur og biðu björgunar.

Unglingarnir voru léttklæddir og var þeim kalt og brugðið. Um hundrað manns fylgdust með þeim frá jörðu niðri að sögn vitna. Hans Adenmark talsmaður tívolísins segir að atvikið sé litið alvarlegum augum og að endurskoða verði reglur með tilliti til veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×