Erlent

Vilja að ekkja og sonur Milosevic verði framseld

Björn Gíslason skrifar
Slobodan Milosevic.
Slobodan Milosevic.

Serbnesk stjórnvöld krefjast þess að Rússar framselji ekkju og son Slobodans Milosovic, fyrrverandi forseta Júgóslavíu, vegna ákæru um stórfellt sígarettusmygl.

Bæði ekkjan Mirjana Markovic og sonurinn Marko Milosevic hafa verið í útlegð í Rússlandi í nokkur ár og voru ekki viðstödd þegar forsetinn fyrrverandi var borinn til grafar í Serbíu í fyrra. Þau eru sökuð um að hafa átt aðild að sígarettusmygli í Serbíu á tíunda áratug síðustu aldar sem numið hafi milljónum dollara. Fjármunirnir hafi svo verið lagðir inn á leynilegan bankareikning utan Serbíu.

Sonurinn Marko neitar öllum sakargiftum fyrir þeirra hönd en yfirvöld í Serbíu vilja engu að síður leggja hald á eignir mæðginanna og frysta bankareikninga þeirra, bæði í Serbíu og annars staðar.

Slobodan Milosevic var aldrei dæmdur fyrir framgöngu sína í stríðunum á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar því hann lést af völdum hjartaáfalls á meðan réttarhöld yfir honum stóðu yfir hjá stríðsglæpadómstólnum í Haag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×