Erlent

Fjórir Palestínumenn létust í sprengingu

MYND/AP

Fjórir ungir Palestínumenn létust í sprengingu í bænum Rafah á suðurhluta Gasastrandarinnar í dag. Reuters-fréttastofan hefur eftir talsmönnum sjúkrahúss á svæðinu að piltarnir hafi allir verið yngri en 18 ára og að sprengin hafi orðið nærri stöðvum Ísraelshers. Talsmenn hersins neita hins vegar að þeir hafi látið til sín taka á svæðinu.

Innan Gasasvæðisins halda átökin hins vegar áfram milli Hamas-liða og Fatah-hreyfingarinnar. Hamas-liðar hafa samkvæmt fregnum náð stærstum hluta Gasasvæðisins á sitt vald og eru 20 manns hið minnsta látnir eftir átök dagsins.

Ekki liggur fyrir hvort Abbas, forseti Palestínu, hyggist slíta stjórnarsamstarfi við Hamas í þjóðstjórn Palestínu en háttsettir menn innan PLO hafa ráðlagt honum það. Átökin á Gasa eiga sér stað þrátt fyrir að leiðtogar fylkinganna tveggja hafi náð samkomulagi um vopnahlé seint í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×