Erlent

Kurt Waldheim látinn

MYND/AP

Austurríkismaðurinn Kurt Waldheim, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lést í dag 88 ára að aldri. Að sögn austurrískra fjölmiðla lést hann úr hjartabilun en hann hafði legið á sjúkrahúsi vegna sýkingar frá því í síðasta mánuði.

Waldheim var framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á árunum 1972-1982 en hann varð öllu þekktari þegar hann varð forseti Austurríkis árið 1986. Þá var ljóstrað upp að hann hefði unnið fyrir nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Kom í ljós að hann hafði verið í hersveit í Þýskalandi sem vann grimmdarverk á Balkanskaganum.

Þrátt fyrir að Waldheim hefði neitað allri aðild að stríðsglæpum í síðari heimsstyrjöldinni var hann víða óvelkominn og var hann meðal annars á eftirlitslista bandarískra stjórnvalda yfir menn sem ekki mega heimsækja landið.

Heinz Fischer, núverandi forseti Austurríkis, vottaði í dag fjölskyldu hans samúð sína og fánar voru dregnir í hálfa stöng á opinberum stofnunum í Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×