Erlent

Segir Írana sjá talibönum fyrir vopnum

MYND/AFP

Bandaríkjamenn hafa óhrekjanlegar sannanir fyrir því að yfirvöld í Íran sjái uppreisnarmönnum talibana í Afganistan fyrir vopnum í baráttu þeirra gegn afgönskum hersveitum og sveitum NATO. Þetta segir Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, í samtali við fréttastöðina CNN.

Burns, sem staddur er hér á landi til að ræða við íslenska ráðamenn, sagði enn fremur að hersveitir NATO hefðu stöðvað slíkar vopnasendingar og að þær kæmu beint frá Byltingarverðinum í Íran.

Burns sagði að með þessu brytu Íranar gegn ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem bannar þeim að flytja vopn úr landi. „Þeir vopna Hizbollah-liða í Líbanon, Hamas-samtökin á Gasa og Vesturbakkanum og auðvitað uppreisnarmenn sjía í Írak. Þetta er ofsafengið og ómarkvisst hjá írönsku ríkisstjórninni," sagði Burns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×