Innlent

Vissi ekki um kaupréttinn

Stefán Hilmarsson bar vitni í Baugsmálinu í gær, í baksýn eru Sigurður Tómas Magnússon, sækjandi í málinu (til vinstri), og Jón Þór Ólason, aðstoðarmaður hans.
Stefán Hilmarsson bar vitni í Baugsmálinu í gær, í baksýn eru Sigurður Tómas Magnússon, sækjandi í málinu (til vinstri), og Jón Þór Ólason, aðstoðarmaður hans. MYND/GVA

Endurskoðandi Baugs sem áritaði ársreikninga félagsins frá stofnun þess vissi ekki um kaupréttarákvæði í ráðningarsamningum þriggja æðstu stjórnenda félagsins, sem gerðir voru árið 1998, fyrr en síðla árs 2002, eftir að rannsókn lögreglu á Baugi var hafin.

Þetta kom fram í vitnisburði Stefáns H. Hilmarssonar í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, en Stefán var endurskoðandi og meðeigandi hjá KPMG endurskoðun og áritaði ársreikninga Baugs frá árunum 1998 til 2002.

Komið hefur fram við meðferð málsins í héraðsdómi að kaupréttarákvæði voru í ráðningarsamningum Baugs við þá Óskar Magnússon stjórnarformann, Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóra, og Tryggva Jónsson aðstoðarforstjóra, en samningarnir voru gerðir árið 1998. Einnig hefur komið fram að hluti kaupréttarákvæðanna var fullnustaður árið 1999.

Jón Ásgeir sagði í skýrslutöku fyrir dómi að kaupréttarsamningar stjórnenda hefðu legið fyrir hjá KPMG, sem sá um greiðslur á launum og hlunnindum stjórnenda.

Ákæruvaldið heldur því fram að vegna kaupréttarákvæðanna hafi hlutabréf í Baugi sem félagið átti sjálft, samtals fjögur prósent af bréfum í félaginu, verið færð á vörslureikning Baugs hjá Kaupþingi í Lúxemborg, sjálfstæðu dótturfélagi Kaupþings, og bókuð sem seld bréf í bókum Baugs.

Stefán sagði í gær að hann hafi fengið að vita af kaupréttarákvæðunum, og að þau hafi að hluta til verið uppfyllt, í október 2002, en rannsókn lögreglu hófst seint í ágúst það sama ár. Upplýsingar um þessi kaupréttar­ákvæði hafi hann fengið frá innri endurskoðun Baugs. Á sama tíma hafi hann fengið að vita af vörslureikningnum í Kaupþingi Lúxemborg.

Kaupréttarsamningarnir tengjast málinu þar sem í einum lið ákærunnar eru þeir Tryggvi og Jón Ásgeir ákærðir fyrir að færa sölu á hlutabréfum í Baugi á reikning hjá Kaupþingi í Lúxemborg, en þau bréf voru meðal annars notuð til að uppfylla kaupréttarákvæðin. Segir í ákærunni að markmiðið hafi verið að draga dul á að stjórnendurnir væru raunverulegir viðtakendur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×