Erlent

Sjö menn dæmdir fyrir að skipuleggja umfangsmikil hryðjuverk

MYND/Reuters

Sjö félagar í hryðjuverkahópi sem skipulagði umfangsmiklar hryðjuverkaárásir í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa verið dæmdir í samtals 136 ára fangelsi í Bretlandi.

Það var Dhiren Barot, maður tengdur al-Qaida, sem fór fyrir hópnum en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi í fyrra fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk meðal annars með svokallaðri skítugri sprengju sem er sprengja með geislavirkum efnum.

Hópurinn hugðist árið 2004 láta til skarar skríða á fjölförnum stöðum í bæði Bandaríkjunum og Bretlandi, þar á meðal í neðanjarðalestarkerfi Lundúna, Í Kauphöllinn í New York og nokkrum byggingum í Washington.

Lögregla komst hins vegar að ráðabrugginu og kom þannig í veg fyrir að hundruð ef ekki þúsundir létust. Sex þeirra sem dæmdir voru í dag játuðu á sig brot sín en sá sjöundi var sakfelldur fyrir að hafa lagt á ráðin um morð. Mennirnir fengu á bilinu 15 til 26 ára fangelsisdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×