Erlent

Ræktuðu stofnfrumur úr legvatni

Dr. Anthony Atala við Wake Forest-háskólann í Norður-Karólínu stýrði rannsókninni.
Dr. Anthony Atala við Wake Forest-háskólann í Norður-Karólínu stýrði rannsókninni. mynd/ap

Bandarískir vísindamenn segjast hafa uppgötvað nýja leið til að komast yfir stofnfrumur, sem gætu þegar fram líða stundir gert við sködduð líffæri í mönnum.

Vísindamenn við Wake Forest-læknaháskólann í Norður-Karólínu skrifa í nýjasta hefti Nature Biotechnology að þeim hefði tekist að vinna stofnfrumur úr vökvanum sem fyllir leg þungaðra kvenna og ræktað þær síðan áfram í tilraunastofu.

Hingað til hafa stofnfrumur sem hægt hefur verið að nota í slíkum tilraunum eingöngu verið hægt að fá úr mannlegum fóstrum. En þetta hefur valdið alvarlegum siðferðilegum vanda, þar sem fóstrið deyr þegar frumurnar eru teknar úr því. Andstæðingar þessara tilrauna halda því fram að þær jafnist á við morð eða jafnvel mannát.

Stuðningsmenn stofnfrumurannsókna segja þær gefa von um að takast megi að finna lækningu við sjúkdómum á borð við sykursýki og hrörnunarsjúkdómana parkinsons og Alzheimer. Það byggist á þeirri hæfni stofnfrumna að geta þroskast í vef af því tagi sem þarf til að lækna viðkomandi sjúkdóm.

Að sögn Paolo De Coppi, sem átti aðild að bandarísku rannsókninni, eru legvatnsfrumurnar sem notaðar voru í tilrauninni fjölhæfar eins og stofnfrumur, án þess þó að vera eiginlegar stofnfrumur.

Fréttavefur BBC hefur eftir breskum vísindamönnum hafa þeir efasemdir um að nokkur lausn felist í þessari aðferð við að ná í stofnfrumur. Í fyrsta lagi geti verið erfitt að útvega nægilega mikið magn legvatns. Í vökvanum eru margar gerðir frumna, margar þeirra koma úr fóstrinu sem er að þroskast í leginu. Við náttúrulega fæðingu tapist allur vökvinn. Í öðru lagi ætti ekki að líta svo á að þær gerðir stofnfrumna sem hægt er að ná í með öðrum aðferðum en úr fóstri geti komið í staðinn fyrir þær, að því er BBC hefur eftir Colin McGuckin við Newcastle-háskóla á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×