Erlent

Bildt sakaður um að hafa þegið mútur frá stórfyrirtæki

Carl Bildt. Sótt er að utanríkisráðherranum vegna kaupréttarsamninga.
Carl Bildt. Sótt er að utanríkisráðherranum vegna kaupréttarsamninga.

Rannsókn er nú hafin í Svíþjóð á ásökunum um að Carl Bildt utanríkisráðherra hafi þegið mútur af rússnesku fyrirtæki sem á stóran hlut í gasrisanum Gazprom. Sjálfur segir hann ásakanirnar „tómt bull“.

Svenska Dagbladet greindi frá því að rannsakað yrði hvort Bildt teldist hafa þegið mútur með því að þiggja kaupréttarsamning að hlutabréfum í rússneska olíu- og gasfyrirtækinu Vostok Nafta. Bildt hagnaðist um sem svarar yfir 45 milljónum króna er hann innleysti samninginn er hann þáði ráðherraembætti í ríkisstjórn borgaralegu flokkanna í haust.

Stjórnmálaskýrendur segja að málið gæti orðið til þess að knýja Bildt til afsagnar. Forsvarsmenn flokks sænskra græningja fóru fram á sakarrannsókn og krefjast afsagnar Bildts.

Starfsemi Vostok Nafta takmarkast að mestu við að eiga hlutabréf í Gazprom, en Gazprom undirbýr nú byggingu umdeildrar gasleiðslu eftir botni Eystrasaltsins frá Rússlandi til Þýskalands. Gagnrýnendur Bildts segja að þetta setji Bildt í vafasamt ljós, þar sem ákvarðanir hans sem ráðherra gætu komið Gazprom til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×