Erlent

Forseti Kazakhstan vill láta handtaka tengdason sinn

Nazarbayev forseti er ekki á því að tengdasonur hans eigi framtíðina fyrir sér í pólitík.
Nazarbayev forseti er ekki á því að tengdasonur hans eigi framtíðina fyrir sér í pólitík. MYND/AFP


Hópur lögfræðinga frá Kazakhstan er nú í Vínarborg þar sem þeir reyna fyrir hönd stjórnvalda að fá tengdason forseta landsins handtekinn. Tengdasonurinn var sendiherra Kazakhstan í Austurríki þangað til á laugardaginn þegar hann var rekinn af forsetanum. Handtökubeiðnin virðist vera liður í harðvítugri fjölskyldudeilu.

Rakhat Aliyev er giftur elstu dóttir forsetans Nursultan Nazarbayevs en hann er ásakaður um að skipuleggja mannrán á tveimur háttsettum bankamönnum. Tengdasonurinn segir hins vegar að málið snúist um að forsetinn sé að reyna að koma í veg fyrir pólitískan frama tengdasonarins.

Í dag barst yfirlýsing frá innanríkisráðuneytinu í Kazakhstan þar sem greint var frá því að gefin hefði verið út handtökutilskipun á hendur Aliyev. Hann segist hins vegar saklaus af ákærunni sem sé hreinn tilbúningur.

Í viðtali við BBC segir Aliyev að hann hafi fyrir nokkrum mánuðum tilkynnt forsetanum að hann hyggist bjóða sig fram til forseta í næstu kosningum í landinu sem fara eiga fram árið 2012. Stuttu síðar hafi sagan um aðild hans að mannránunum farið á kreik. Hann segist vilja stuðla að umbótum í landinu og að markmið hans sé að gera lífskilyrði þegnanna svipuð og þekkist í Evrópu.

Fréttaritari BBC í Kazakhstan segir hins vegar að tengdasonurinn sé umdeildur maður í heimalandi sínu, hann hafi verið viðriðinn fjölmörg hneykslismál og að hann eigi hagsmuna að gæta víða í viðskiptalífi landsins. Fréttaritarinn segir að deilan snúist aðallega um völd og peninga en ekki um lýðræði og velmegun þegnanna.

Nazarbayev forseti hefur verið völd í landinu í 17 ár og í síðustu viku breytti hann lögum í landinu á þann veg að hann getur boðið sig fram til forseta eins oft og hann vill.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×