Erlent

Myndskeið af aftöku Saddams sett á Netið

Saddam Hussein var jarðsettur í heimabæ sínum í dögun í morgun að viðstöddum hópi manna.
Saddam Hussein var jarðsettur í heimabæ sínum í dögun í morgun að viðstöddum hópi manna. MYND/AP

Saddam Hussein og böðlar hans skiptust á blótsyrðum og svívirðingum, fyrir aftökuna. Þetta má sjá og heyra á myndskeiði sem búið er að setja á Netið. Það virðist tekið á farsíma því myndirnar eru ekki mjög skýrar. Saddam var jarðsettur í heimabæ sínum í birtingu í morgun.

Saddam var rólegur og augnaráð hans var fjarrænt þegar hann var leiddur að gálganum. Hann svaraði þó böðlum sínum fullum hálsi þegar þeir atyrtu hann.

Heyra má böðlana segja við Saddam: „þú hefur tortímt okkur, þú hefur drepið okkur. Þín vegna lifum við í fátækt." Og Saddam svarar: „Ég hef bjargað ykkur frá fátækt og eymd og tortímt óvinum ykkar, Bandaríkjamönnum og Persum."

Böðlarnir segja: „Guð fordæmi þig," og Saddam svarar um hæl: „Guð fordæmi þig." Síðan byrjar leiðtoginn fyrrverandi að þylja bænir þar til fallhlerinn opnast og snaran stöðvar hann í miðri setningu. Síðasta orðið sem hann sagði var Múhammeð.

Saddam Hussein var svo jarðsettur í heimabæ sínum Awja, snemma í morgun. Hann var jarðsettur í fjölskyldugrafreit, þar sem meðal annarra hvíla synir hans Uday og Qusay, sem féllu í bardaga við bandaríska hermenn árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×