Erlent

Rúmenía og Búlgaría í ESB um áramótin

Borgarstarfsmaður í Búkarest í Rúmeníu hengir upp fána Rúmeníu og Evrópusambandsins fyrir hátíðahöldin í nótt vegna inngöngu landsins í ESB.
Borgarstarfsmaður í Búkarest í Rúmeníu hengir upp fána Rúmeníu og Evrópusambandsins fyrir hátíðahöldin í nótt vegna inngöngu landsins í ESB. MYND/AP

Búast má við miklum hátíðahöldum í Rúmeníu og Búlgaríu á miðnætti en þá ganga löndin formlega í Evrópusambandið. Tónleikar verða í höfuðborgum landanna, Búkarest og Sofíu, og þá mun Jose Manuel Barroso, formaður framkvæmdastjórnar ESB, halda ræðu í Sofíu vegna tímamótanna.

Eftir inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu verða Evrópusambandslöndin 27 og íbúar innan sambandsins nærri hálfur milljarður. Ýmis skilyrði hafa verið sett fyrir inngöngu landanna tveggja í ESB, svo sem að yfirvöld í löndunum berjist harðar gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi.

Rúmenía og Búlgaría verða fátækustu lönd Evrópusambandsins með inngöngunni en landsframleiðsla á hvern íbúa er einungis um þriðjungur af meðaltali Evrópusambandslandanna.

Auk þessara breytinga á Evrópusambandinu munu Slóvenar taka upp evru frá og með áramótum, fyrstir þeirra tíu ríkja sem gengu í sambandið árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×