Erlent

Vilja banna aftökur með lyfjum

Angel Diaz þjáðist ekki við aftökuna að sögn fangelsismálayfirvalda. Engu að síður sáu vitni hann engjast.
Angel Diaz þjáðist ekki við aftökuna að sögn fangelsismálayfirvalda. Engu að síður sáu vitni hann engjast. MYND/AP

Andstæðingar dauðarefsingar kröfðust þess í dag að Hæstiréttur Flórída hætti að dæma fólk til dauða með banvænni lyfjasprautu eftir að dauðastríð dæmds morðingja tók 34 mínútur eftir slíka aftöku í gær. Sprauta þurfti manninn tvisvar en hann engdist engu að síður í rúman hálftíma, meðan flestir gefa upp öndina á nokkrum mínútum.

Angel Diaz var dæmdur til dauða fyrir morð sem hann framdi árið 1979. Fangelsismálayfirvöld í Flórída segja að hann hafi brugðist hægar við lyfjunum en aðrir vegna lifrarsjúkdóms sem hann hefur átt við. Þau héldu því einnig fram að Diaz hefði ekki þjáðst, þar sem hann hefði verið meðvitundarlaus.

Fleiri ríki í Bandaríkjunum, sem heimila dauðarefsingar, nota þessa blöndu þriggja lyfja við aftökur. Flórída hóf að nota lyfjablönduna eftir nokkrar misheppnaðar aftökur í rafmagnsstól ríkisins. Í frægasta atvikinu stóðu logar upp úr höfði fangans meðan á aftöku stóð árið 1997.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×