Erlent

Fjöldi ökumanna sektaður í Reykjavík

11 ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík um helgina. Yngstur þeirra er liðlega 16 ára piltur sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi eins og gefur að skilja. Þá stöðvaði lögreglan för 9 ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Tveir þeirra voru nú teknir fyrir þetta brot öðru sinni.

Tíu ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og fimm sem ýmist spenntu ekki beltin eða töluðu í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Tæplega tuttugu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur.

57 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar en í 8 þeirra stungu hinir seku af. Flest óhöppin voru minniháttar að undanskildu hörmulegu bílslysi á Vesturlandsvegi síðdegis á sunnudag.

Skrásetningarnúmer voru klippt af sex ökutækjum sem höfðu ekki verið færð til skoðunar eða voru ótryggð. Þá ber nokkuð á því að ökumenn eru ekki með ökuskírteini meðferðis eða hirða ekki um að endurnýja það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×