Erlent

Fuglesang loks lentur við alþjóðlegu geimstöðina

Svíinn Christer Fuglesang vinnur við tölvuna sína í þyngdarleysi um borð í Discovery-geimflauginni. Tölvan er njörvuð niður á lærin á honum með frönskum rennilás.
Svíinn Christer Fuglesang vinnur við tölvuna sína í þyngdarleysi um borð í Discovery-geimflauginni. Tölvan er njörvuð niður á lærin á honum með frönskum rennilás. MYND/frá NASA

Sænski geimfarinn með hljómfagra nafnið, Christer Fuglesang, er ekki einasta kominn út í geim, heldur lentur við alþjóðlegu geimstöðina. Flaugin sem hann og félagar þeyttust með út fyrir hvolfin jarðarinnar lagðist að geimstöðinni upp úr tíu í kvöld. Lendingin á geimstöðinni er hættulegasti hluti ferðarinnar, að sögn Dagens Nyheter.

Þar er þessu vandasama ferli lýst nákvæmlega, hvernig geimferjunni er stillt upp samsíða geimstöðinni, í 200 metra fjarlægð og stýrt með handafli þaðan síðasta spölinn. Bilið styttist um þrjá sentimetra á sekúndu, sem virðist nú vera viðráðanlegt. En málið vandast þegar hitt er tekið með í myndina að bæði flaugin og stöðin renna eftir sporbaugi á 28.000 km/klst í kringum jörðina.

Ferðalangarnir verða boðnir velkomnir yfir í geimstöðina upp úr miðnætti í kvöld að íslenskum tíma, þegar hugað hefur verið að öllum öryggisráðstöfunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×