Erlent

Siniora segir Hisbollah stefna á valdarán

Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons.
Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons. MYND/AP

Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons, sakaði leiðtoga Hisbollah um að vilja ræna völdum af réttkjörinni ríkisstjórn í óvenju harðorðri ræðu í kvöld. Ræðan var send út frá skrifstofu hans, þar sem hann hefur hafst við í rúma viku, síðan stuðningsmenn Hisbollah lögðu undir sig göturnar fyrir utan stjórnarráðið í Beirút.

Meðan forsætisráðherrann talaði inni á skrifstofu sinni, spiluðu stuðningsmenn Hisbollah ræðu leiðtoga síns fyrir utan, þar sem Hassan Nasrallah sakaði forsætisráðherrann Siniora um að draga taum Ísraela í átökunum í sumar.

Siniora sagði Nasrallah vera að "hóta valdaráni, allar yfirlýsingar hans bera í sér fræ mislyndis og haturs."

"Hver kaus þig til að segja "Ég hef rétt fyrir mér og allir aðrir fara með fleipur"," var ein þeirra spurninga sem forsætisráðherrann beindi til Nasrallah.

Siniora á stuðning Vesturlanda og flestra arabaríkjanna. Hann endurtók yfirlýsingar sínar um að mótmæli Hisbollah, sem hafa nú staðið yfir í 8 daga, myndu aldrei ná að velta ríkisstjórn hans úr sessi. Hisbollah hefur boðað til mikilla mótmæla á sunnudag til að reyna að steypa stjórninni á friðsamlegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×