Erlent

Sprengjumaður myrtur af múg

Írösk kona er harmi slegin yfir dauðsföllunum í sprengiárásinni.
Írösk kona er harmi slegin yfir dauðsföllunum í sprengiárásinni. MYND/AP

Að minnsta kosti 46 Írakar létust í sprengingum í Írak í gær. Einni sprengju hafði verið komið fyrir í sendiferðabíl á fiskmarkaði í hverfi sjía-múslíma í bænum Kufa, suður af Bagdad.

Maðurinn sem sakaður var um að hafa lagt bifreiðinni var króaður af og drepinn af trylltum múg þegar hann gekk burt frá sprengingunni.

Önnur sprenging olli dauða 15 óbreyttra borgara og særði 25 í öðru hverfi í Bagdad.

Ekki er víst að árásirnar hafi verið bein afleiðing aftöku Saddams Hussein, en ein helsta hátíð sjía-múslíma, Eid al-Adha, er gengin í garð og fjöldi manns var á ferli að kaupa inn fyrir fjögurra daga hátíðahöld.

Búist var við miklum átökum í kjölfar aftökunnar, en ofbeldi hefur ekki færst í aukana síðan Saddam var tekinn af lífi, en nokkuð var um friðsamleg mótmæli.

Bandaríkjaher tilkynnti í gær um dauða fimm hermanna, en dauðsföll bandarískra hermanna í Írak í mánuðinum eru orðin 108 talsins. Fleiri bandarískir hermenn hafa nú látist í desember en í nokkrum öðrum mánuði ársins.

Alls hafa að minnsta kosti 2.997 bandarískir hermenn látist frá upphafi stríðs í mars árið 2003.

Að meðaltali hafa 76 Írakar látist á dag í átökum í desembermánuði, samkvæmt talningu AP fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×