Erlent

Hækkað öryggisstig vegna bréfs sem sumir segja „augljóst gabb“

Indverjar hækkuðu öryggisstig á sex flugvöllum í morgun eftir að nafnlaust hótunarbréf varaði við árásum Al kaída á sex flugvelli á SA-Indlandi. Ýmsir öryggisstarfsmenn segja bréfið „augljóst gabb" og nefna fyrir því nokkur rök en flugvallaryfirvöld taka enga áhættu. Flugvallarstarfsmaður í Tamil Nadu fann bréfið í gær.

Bréfið er á tamíltungu og varar við því að Al kaída hafi komið fyrir „nútímalegu sprengiefni" á ónafngreindum flugvöllum í borginni Chennai (fyrrum Madras) og héraðinu í kring: Tamil Nadu, auk nágrannahéraðsins Kerala. Einnig er í bréfinu varað við bílasprengjum. Rökin fyrir því að bréfið sé falsað eru meðal annars þau að nafnið „Allah Osama" sem birt er í nafninu geti ekki staðist vegna þess að enginn múslimi myndi nota nafn Guðs svo kæruleysislega. Einnig þykir draga úr trúverðugleika bréfsins að flugvellirnir séu ekki nafngreindir.

En lögreglan hættir ekki á neitt enda muna menn þegar nafnlaust viðvörunarsímtal var afskrifað sem rökleysa árið 1984. Síðan sprakk sprengja á Chennai-flugvelli sem varað var við og 40 manns létust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×