Erlent

Miklir skipsskaðar í sjóorrustum á Sri Lanka

Hermaður úr röðum stjórnarhersins.
Hermaður úr röðum stjórnarhersins. MYND/AP

Stjórnarherinn á Srí Lanka sökkti í morgun tveimur skipum tamíla-tígra sem sögð voru hlaðin sprengiefnum. Þá var háttsettur stjórnmálamaður úr röðum tamíla skotinn til bana í morgun í höfuðborginni Colombo.

Vopnahléið á Srí Lanka hefur staðið völtum fótum undanfarna mánuði og síðustu daga hefur enn sigið á ógæfuhliðina. Sjóorrustan í morgun átti sér stað fyrir utan Trincomalee á austanverðri eyjunni. Talsmenn hersins segja að tveimur skipum tamíla, drekkhlöðnum sprengiefnum, hafi verið sökkt en þau hafi átt að nota til sjálfsmorðsárásar á farþegaferju með um 300 manns innanborðs.

Í gær sukku 24 skip í miklum sjóorrustum norður af Jaffna-skaga. 23 hermenn týndu þar lífi en ekki er vitað um mannfall á meðal tamíla. Þá var þingmaður úr röðum Þjóðernisfylkingar tamíla skotinn til bana í höfuðborginni Colombo í morgun. Rajapakse forseti hefur þegar fordæmt morðið og sagt það framið til að hella olíu á ófriðareldinn. Sú átakahrina sem staðið hefur yfir undanfarna tvo sólarhringa kemur í kjölfar stórskotaliðsárásar hersins á flóttamannabúðir tamíla á miðvikudaginn.

Talið er að í það minnsta 60 saklausir borgarar hafi beðið þar bana, þorri þeirra konur, börn og gamalmenni, og 150 særst. Árásin hefur hvarvetna verið fordæmd, meðal annars af Sameinuðu þjóðunum og mannréttindasamtökunum Amnesty International.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×