Erlent

Úrbætur í 79 liðum

Ráðgjafarnefnd Bandaríkjaforseta segir að ástandið í Írak sé grafalvarlegt og fari versnandi. Í skýrslu nefndarinnar segir að stefna forsetans sé ekki að skila árangri og lagt er til að umtalsverður hluti herliðsins í landinu verði kallaður heim á næstu misserum.

Óhætt er að segja að skýrslunnar hafi verið beðið með nokkurri eftirvængingu enda hefur ástandið í Írak farið stigversnandi með hverjum mánuðinum og úrbóta því þörf. Starfshópurinn, sem skipaður er fulltrúum úr báðum stóru flokkunum, hefur verið að störfum síðan í apríl og rætt á þeim tíma við um 170 manns um hvað betur megi fara í stríðsrekstrinum í Írak. Myndin sem þeir drógu upp í dag var hreint út sagt kolsvört.

Lee Hamilton, varaformaður hópsins, sagði ástandið í Írak færi hríðversnandi og mannfall hefði aukist, bæði hjá bandarískum hermönnum og íröskum borgurum. Hann bætti því við að nú þegar hefði stríðið kostað bandaríska skattgreiðendur 27 þúsund milljarða króna og áður en yfir lyki gæti reikningurinn hljóðað upp á 68 þúsund milljarða. En starfshópurinn telur að enn séu nokkrir möguleikar í stöðunni og því leggur hún til 79 breytingar á stefnunni í Írak. Segja má að þrír þættir séu leiðarstefið í tillögunum. Í fyrsta lagi á að endurskilgreina verkefni Bandaríkjahers í Írak þannig að þær sjái frekar um að aðstoða íraskar hersveitir en að taka sjálfar þátt í bardögum. Þannig mætti fækka bandarískum hermönnum um allt að helming á næstu 18 mánuðum. Í öðru lagi verður að knýja írösku stjórnina til að herða sig í að sætta ólíka þjóðfélagshópa landsins og í þriðja lagi þarf að koma til samstillt átak ríkisstjórna á svæðinu og setja ætti á fót sérstakan vettvang til þess arna. Í því sambandi væri framlag Sýrlendinga og Írana afar þýðingarmikið.

George Bush Bandaríkjaforseti las skýrsluna yfir í dag og sagðist hann hafa tjáð fulltrúum starfshópsins að tillögur þeirra yrðu teknar mjög alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×