Erlent

Burt með sektarkenndina

Shinzo Abe prófar valdastólinn  Hér sést Abe koma sér fyrir á skrifstofu Frjálslynda lýðræðisflokksins í Tókýó. Abe var kosinn forseti flokksins með 464 atkvæðum af 703. Sökum yfirburðastöðu flokksins er hann líklegastur manna til að taka við völdum af núverandi forsætisráðherra.
Shinzo Abe prófar valdastólinn Hér sést Abe koma sér fyrir á skrifstofu Frjálslynda lýðræðisflokksins í Tókýó. Abe var kosinn forseti flokksins með 464 atkvæðum af 703. Sökum yfirburðastöðu flokksins er hann líklegastur manna til að taka við völdum af núverandi forsætisráðherra. MYND/Nordicphotos/getty Images

Tókýó, AP Flokksmenn vinsælasta stjórnmálaflokks í Japan, Frjálslynda lýðræðisflokksins, kusu hinn hægrisinnaða Shinzo Abe til leiðtoga í gær. Hann er því næsta öruggur um að verða forsætisráðherra landsins þegar núverandi forsætisráðherra, Junichiro Koizumi, segir af sér í komandi viku. Abe verður þar með fyrsti forsætis­ráðherra Japans sem fæddur er eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar, en hann er 51 árs gamall, sem þykir lágur aldur fyrir forsætisráðherra í Japan. Hann er með þrettán ára þingsetu að baki en er tiltölulega reynslulítill og tók ekki við ráðherradómi fyrr en í fyrra.

Abe vann öruggan sigur í prófkjörinu, fékk 464 atkvæði af 703. Vinsældir hans ná út fyrir raðir lýðræðisflokksins, því þegar hann barðist fyrir lausn japanskra gísla frá Norður-Kóreu vakti hann mikla athygli og aðdáun almennings.

Það er einmitt utanríkisstefnan sem Abe er þekktastur fyrir. Hann hefur heitið því að gera Japan að landi sem allur heimurinn „treystir og elskar“. Japan á að sýna „ákveðni“ út á við og eitt fyrsta verk hans eftir að hann var kjörinn í gær var að þrýsta á um fund með kínverskum og suður-kóreskum stjórnvöldum. Tengsl ráðamanna þessara ríkja við núverandi forsætisráðherra Japans hafa ekki verið sem best, en Koizumi var ófeiminn við að rifja upp hernaðarsögu Japana og mæltist ekki vel fyrir í ríkjunum, sem urðu fyrr á tímum að þola grimmdarverk af hálfu japanska hersins.

Leiðtogaskipti kunna að liðka fyrir í samskiptum ríkjanna en Abe er þó talinn mikill þjóðernissinni, sem sé engu líklegri til að gera lítið úr hernaðarsögu Japana en forveri hans í starfi. Að auki mun Shinzo Abe hafa í hyggju að gera breytingar á stjórnarskránni þess efnis að utanríkisstefna japönsku þjóðarinnar verði endurskilgreind og horfið frá hreinni friðarstefnu, hornsteini japanskrar utanríkisstefnu allt frá endurreisn landsins eftir seinni heimsstyrjöldina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×