Innlent

Enginn er eyland í R-listanum

„Það býður enginn flokkur fram Reykjavíkurlista einn og sér - það er ekki R-listi,“ segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Tveir menn eru skráðir fyrir Reykjavíkurlistanum í fyrirtækjaskrá - annar er framsóknarmaður og hinn er í Samfylkingunni. Össuri Skarphéðinssyni hefur orðið tíðrætt undanfarna daga um þann möguleika að Samfylkingin bjóði ein fram undir nafni R-listans, í samstarfi við óháða. En er það hægt - á Samfylkingin Reykjavíkurlistann? Fréttastofan komst að því hjá fyrirtækjaskrá í dag að R-listinn fékk kennitölu 23. febrúar 1994. Ábyrgðarmaður þá var Valdimar K. Jónsson. Heimilisfang listans er sagt Laugavegur 31. Þeir sem standa að félaginu eru kjördæmisráð Alþýðubandalagsfélagsins í Reykjavík, fulltrúaráð Alþýðuflokksfélaganna og Framsóknarfélaganna í Reykjavík og Samtök um Kvennalista. Í fyrirtækjaskránni kemur einnig fram að R-listinn eigi heima að Drápuhlíð 29 hjá Ingvari Sverrissyni. Spurningin er þá væntanlega: Hver á nafnið „Reykjavíkurlistinn“ - ef nokkur? Valdimar K. Jónsson er framsóknarmaður, Ingvar Sverrisson er framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Þrjátíu og tveimur prósentum þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Plússins á þriðjudag leist vel á Össur Skarphéðinsson sem næsta borgarstjóra. Heimildamenn fréttastofu telja að Össur gæti ef til vill orðið sterkt borgarstjóraefni Samfylkingarinnar, en að sama skapi sé afar ólíklegt að Framsóknarflokkur og Vinstri grænir gætu sætt sig við hann sem borgarstjóraefni sameinaðs R-lista. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segist enga skoðun hafa á því hverjir vilji taka slaginn um borgarstjórastólinn - sú umræða sé einfaldlega ótímabær. Hún segir hugmyndina um að Samfylkingin bjóði fram undir merkjum R-lista, án hinna samstarfsflokkanna tveggja, hafi verið viðruð af Gunnari Karlssyni prófessor á fundi hjá Samfylkingunni, en að hennar mati býður enginn flokkur fram R-lista einn og sér - það sé ekki R-listi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×