Erlent

Mál Fischers inn á Japansþing

Stjórnarandstöðuþingmenn í Japan ætla á morgun að krefja stjórnarliða svara við því hvers vegna Bobby Fischer sé enn í haldi þrátt fyrir að hafa uppfyllt öll skilyrði fyrir því að vera sleppt úr haldi. Fischer er aftur kominn í einangrun í gæslufangelsinu eftir átök við fangavörð. Stuðningsmenn Fischers hafa síðustu daga átt fundi með þingmönnum á japanska þinginu til að fá þá til liðs við sig í baráttunni við að fá hann leystan úr haldi og sendan til Íslands. Sú vinna hefur nú skilað árangri. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 munu þingmenn úr Lýðræðisflokknum, stærsta stjórnarandstöðuflokknum, krefja stjórnarliða svara um mál Fischers á morgun í opnum fyrirspurnartíma þingnefndar sem fer með diplómatísk samskipti og varnarmál. Þar með er vonast til þess að mál hans komist á hreyfingu enda telja lögmenn Fischers engar lagaforsendur til að halda honum lengur. En á meðan málið vindur upp á sig á hinum póltíska vettvangi í Tókýó er Fischer aftur kominn í einangrun eftir að hafa lent í átökum við fangavörð. Þegar það gerðist var Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, var í beinu símasambandi við Fischer sem var að segja honum frá því þegar hann braut gleraugu eins varðanna. Sæmundur segir að Fischer hafi sagst hafa stappað á gleraugunum viljandi og brotið þau. Þegar hér var komið sögu komu verðir og leiddu Fischer á brott. Sæmundur segir að Fischer hafi öskrað að verðirnir væru að taka hann og þá hafi sambandið slitnað. Hann sé í einangrun því Sæmundur hafi hvorki getað heimsótt hann í gær né í dag. Sæmundur segir að Fishcer losni ekki nema hann fái ríkisborgararétt fyrir 5. apríl þegar Bandaríkjamenn ákveða hvort þeir ákæra hann fyrir skattsvik. Ef hann fái ríkisborgararéttinn eftir þann tíma sé hann hræddur um að Fischer verði sendur til Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×