Erlent

Þarf að fá ríkisborgararétt

Lögfræðingar Bobbys Fischers segja að það sé grundvallaratriði að íslensk stjórnvöld veiti honum íslenskan ríkisborgararétt. Ríkisborgararéttur myndi marka tímamót og koma máli hans loks á hreyfingu. Allsherjarnefnd Alþingis hefur í tvígang frestað því að taka afstöðu til þess hvort veita eigi Fischer ríkisborgararétt á þeim grundvelli að ekkert liggi fyrir í málinu sem renni stoðum undir þá fullyrðingu Fischers í persónulegu bréfi til Alþingis að íslenskur ríkisborgararéttur myndi styrkja stöðu hans gagnvart japönskum stjórnvöldum. Lögfræðingar Fischers hafa nú svarað þessu og sent frá sér lögfræðiálit um málið og mun bréf sama efnis verða sent til Alþingis á næstu dögum. Lögfræðingarnir benda á að í japönskum lögum segir beinlínis „að hverjum þeim sem vísa eigi úr landi skuli þá vísað til þess lands af hvers þjóðerni hann er eða þar sem hann á ríkisborgararétt“. Þeir segja því að það skipti sköpum og muni marka tímamót fái Fischer íslenskan ríkisborgararétt því þá verði Ísland heimaland hans. Japanska dómsmálaráðuneytinu væri þar með hvorki stætt á því að meina honum að yfirgefa Japan né vísa honum til Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×