Erlent

Flogið aftur til Taílands

Íslensku flugvélinni, sem komin er til Taílands til að flytja slasaða Svía heim til Svíþjóðar, verður snúið aftur til Taílands í annað sjúkraflug um leið og þessu lýkur. Flestir í hópi Svíanna, sem verið er að flytja heim, hafa misst ástvini í flóðbylgjunni. Flugvélin lenti í morgun í Bangkok í Taílandi og íslenska heilbrigðis- og björgunarfólkið um borð hefur notað daginn til að undirbúa vélina fyrir sjúkraflugið til Svíþjóðar sem farið verður á morgun. Alls verða þá fluttir átján legusjúklingar og ríflega 40 aðrir, sem ýmist eru sjúklingar eða aðstandendur. Þetta fólk er slasað á ýmsan hátt, með hryggáverka, beinbrot og alvarlegar sýkingar og flestir eiga það sammerkt að hafa misst náinn ættingja í flóðunum. Steingrímur Ólafsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, er með í för og hann sagði að í upphafi hefði verið haldið að af þeim átján legusjúklingum sem fljúga ætti til síns heima væru á bilinu fjórir til fimm alvarlega slasaðir en það breyttist. Ákveðið hefði verið að leyfa fjölskyldum að ferðast heim saman en Svíarnir hefðu verið gagnrýndir fyrir að sundra fjölskyldum. Fólkið hefði lent í gríðarlegum áföllum og mætti síst við því að vera aðskilið frá ástvinum. Yfir tuttugu munaðarlaus, sænsk börn hafa undanfarna daga verið flutt heim til Svíþjóðar. Steingrímur segir að íslenska starfsfólkið um borð tali allt annaðhvort sænsku eða dönsku og hafi undirbúið sig fyrir hlutverk sitt af mikilli umhyggju og nærgætni. Það hefði t.d. komið með að heiman sænskar barnamyndir til að hafa í vélinni, þetta væri ótrúlegur hópur. Flugvélin fer beint inn í flugskýli þegar hún lendir á Arlanda-flugvelli í Svíþjóð síðla dags á morgun og þar taka sænskir læknar við fólkinu. Sænsk stjórnvöld leituðu hins vegar eftir því í dag að íslenska flugvélin færi aftur til Taílands til að ná í fleiri Svía og við þeirri ósk verður orðið. Allra leiða er nú leitað til að finna lík af fórnarlömbum flóðanna og meira að segja fílar eru notaðir í þá vinnu sem og til að hreinsa til. Auglýsingar um allt það fólk sem saknað er blasa hvarvetna við, líka á hóteli Íslendinganna í Bangkok. Steingrímur sagðist finna að gríðarleg sorg réði ríkjum á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×