Enski boltinn

Owen segir að Capello hafi verið „algjört drasl“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Owen lék aðeins einn leik fyrir enska landsliðið eftir að Capello tók við því.
Owen lék aðeins einn leik fyrir enska landsliðið eftir að Capello tók við því. vísir/getty
Ný ævisaga Michaels Owen, Reboot - My Life, My Time, hefur gert allt vitlaust. Í bókinni lætur hann fyrrverandi samherja sína í enska landsliðinu, Alan Shearer og David Beckham, m.a. heyra það sem og Fabio Capello sem var landsliðsþjálfari Englands á árunum 2008-12.

Owen lék aðeins einn leik með landsliðinu undir stjórn Capellos og hætti svo í því fjórum mánuðum eftir að Ítalinn tók við.

„Það var eins og Capello hefði fundist hann þurfa að breyta einhverju þegar hann tók við landsliðinu,“ segir Owen í ævisögunni.

„Og það reyndist vera ég. Þetta var eins og yfirlýsing. Það þarf því ekki að koma á óvart að ég sé gramur þegar ég hugsa um þjálfaratíð hans með enska landsliðið.“

Ekki fer á milli mála að Owen hefur lítið álit á Capello.

„Hann setti ekki bara punktinn aftan við landsliðsferilinn minn án nokkurar skýringa heldur var hann einn slakasti landsliðsþjálfari Englands frá upphafi,“ segir Owen.

„Hann var algjört drasl. Að mínu mati olli Capello landsliðsferli mínum og enskum fótbolta í heild sinni miklum skaða og fékk vel borgað fyrir það.“

Owen lék 89 landsleiki og skoraði 40 mörk. Hann er fimmti markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×