Enski boltinn

Gylfi fær nýjan stjóra | Monk rekinn frá Swansea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Garry Monk.
Garry Monk. Vísir/Getty
Garry Monk var í dag rekinn sem knattspyrnustjóri Swansea City en velska liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu ellefu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Síðasti leikur Garry Monk var 3-0 tapleikur á móti Leicester City um síðustu helgi en eftir það tap var Swansea-liðið í 15. sæti töflunnar.

Garry Monk er búinn að vera í ellefu ár hjá Swansea City, fyrst sem leikmaður og svo sem knattspyrnustjóri frá því í febrúar 2014 þegar hann tók við liðinu af Michael Laudrup.

„Þessi ákvörðun var tekin með trega og með þungu hjarta," sagði stjórnarformaðurinn Huw Jenkins í fréttatilkynningu frá félaginu. BBC segir frá þessu.

Sjá einnig:Vonandi ekki svanasöngur Swansea-liðins

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar verða því með nýjan knattspyrnustjóra þegar þeir heimsækja Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Swansea City gerði flotta hluti undir stjórn Garry Monk á síðasta tímabili þar sem liðið náði áttunda sætinu á hans fulla tímabili sem stjóri liðsins.

Liðið byrjaði þetta tímabil vel og voru meðal fjögurra efstu liðanna eftir 2-1 sigur á Manchester United í lok ágúst. Liðið hefur hinsvegar aðeins unnið einn leik af ellefu síðan og það var þegar Gylfi skoraði beint úr aukaspyrnu í sigri á Aston Villa.

Sjá einnig:Gylfi besti maður vallarins

Swansea City reiknar með að finna eftirmann Garry Monk sem fyrst en það eru bara þrír dagar í næsta leik og framundan eru fjöldi leikja yfir jól og áramót.


Tengdar fréttir

Sky: Starf Garry Monk í hættu

Breski miðilinn greinir frá því í kvöld að óvíst sé hvort Garry Monk verði enn við stjórnartaumana þegar Gylfi Þór og félagar mæta Manchester City um næstu helgi eftir hræðilegt gengi undanfarnar vikur.

Messan: Neisti í Gylfa | Myndband

Gylfi Þór Sigurðsson átti ágætan leik þegar Swansea steinlá, 0-3, fyrir Leicester City í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×