Innlent

ECA lítur svo á að fullnaðarleyfi hafi verið veitt

Erla Hlynsdóttir skrifar
Óljóst virðist vera á hvaða stigi undirbúningur er fyrir skráningar véla ECA hér á landi
Óljóst virðist vera á hvaða stigi undirbúningur er fyrir skráningar véla ECA hér á landi

Forsvarsmenn fyrirtækisins ECA Program Limited líta svo á að fullnaðarleyfi hafi verið veitt fyrir starfsemi sinni á Íslandi. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins.

Þar birtist í gær frétt með fyrirsögninni: „Icelandic government grants ECA final operating license" sem á íslensku útleggst sem: „Íslensk stjórnvöld veita ECA endanlegt starfsleyfi."

Í fréttinni sjálfri er vísað á vef samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins og sagt að Kristján L. Möller, sem þar er nefndur „Christian L. Möller," hafi skipað Flugmálastjórn Íslands að hefja skráningarferli fyrir þær vélar ECA sem koma eiga til Íslands.

„ECA lýsir yfir ánægju sinni og þakklæti vegna samþykkis ríkisstjórnar Íslands og hlakka forsvarsmenn fyrirtækisins til að vinna náið með Flugmálastjórn Íslands og íslenskum yfirvöldum á komandi mánuðum."

Ekki hefur virst sem sátt ríki um málið innan ríkisstjórnarinnar og eftir að fregnir bárust af því í gær að Kristján hafi sent Flugmálastjórn bréf þar sem þeim er veitt heimild til undirbúnings á skráningum véla ECA barst yfirlýsing frá forsætisráðuneytinu þar sem kom fram að Kristján hafi oftúlkað stefnu stjórnvalda í málinu.

Sem kunnugt er gaf Kristján út að ákvörðunin hafi verið tekin á fundi með þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag.

Ögmundur Jónasson, nýskipaður ráðherra yfir málaflokknum, mun hins vegar taka ákvörðun um hvort leyfið verður veitt.

Miðað við afgerandi túlkun ECA á skilaboðum Kristjáns er hins vegar ljós að skortur er á skýrum tjáskiptum milli íslenskra yfirvalda og fyrirtækisins.






Tengdar fréttir

Ráðherrar höfðu enga hugmynd um síðasta embættisverk Kristjáns

Síðasta embættisverk Kristján L. Möllers, sem var að veita flugmálastjóra heimild til að hefja undirbúning á skráningu loftfara fyrir hollenska fyrirtækið ECA Program Limited hér á land, hefur valdið gríðarlegum titringi innan Vinstri grænna.

Stefán Pálsson: Ótrúlega ósmekklegur kveðjuhrekkur

„Þetta er gjörsamlega fráleitt. Þetta er ótrúlega ósmekklegur kveðjuhrekkur af hálfu Kristjáns,“ segir Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga um ákvörðun Kristjáns l. Möllers, fráfarandi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, að veita flugmálastjóra heimild til að hefja undirbúning á skráningu loftfara fyrir hollenska fyrirtækið ECA Program Limited hér á landi.

Ekkert samkomulag um skráningu herþotna á Íslandi

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra vilja kom á framfæri leiðréttingu vegna frétta í dag um að samkomulag hafi náðst um að samgöngu- og sveitastjórnaráðherra myndi veita Flugmálastjórn heimild til að undirbúa skráningu herþotna hollenska fyrirtækisins ECA program.

Kristján Möller: Ákveðið á fundi með Steingrími og Jóhönnu

Kristján Möller, fyrrverandi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, segir að ákvörðun um að veita Flugmálastjórn heimild til að hefja undirbúning á skráningu loftfara fyrir hollenska fyrirtækið ECA Program Limited á Keflavíkurflugvelli hafi verið tekin eftir spjall hans við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formann vinstri grænna, eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×