Innlent

Kristján Möller: Ákveðið á fundi með Steingrími og Jóhönnu

Erla Hlynsdóttir skrifar
Kristján Möller segist ekki vita hvort leyfisferlið sé komið það langt að ekki sé hægt að snúa við.
Kristján Möller segist ekki vita hvort leyfisferlið sé komið það langt að ekki sé hægt að snúa við.

Kristján Möller, fyrrverandi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, segir að ákvörðun um að veita Flugmálastjórn heimild til að hefja undirbúning á skráningu loftfara fyrir hollenska fyrirtækið ECA Program Limited á Keflavíkurflugvelli hafi verið tekin eftir spjall hans við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formann vinstri grænna, eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag.

Kristján tekur fram að málið hafi ekki verið á dagskrá ríkisstjórnarinner heldur var ákvörðin tekin eftir þann fund. „Þetta var ekki ákveðið í samráði við ráðherra VG. Það er rétt. Þetta var ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar" segir hann.

Þegar blaðamaður bendir Kristjáni á að innan vinstri grænna hefur verið mikil andstaða við að ECA fái umrætt leyfi segir hann: „Ekki miðað við þetta," og bendir á að ákvörðunin hafi verið tekin á fundi hans með Steingrími sjálfum.

Nokkuð er síðan umræða um leyfi til ECA fór í gang og hafa aðstoðarmenn innan ráðuneytanna unnið að málinu síðan. „Undirbúningsvinnu var nú lokið og niðurstaðan var að sameiginlega þyrfti að taka næsta skref," segir hann. Því hafi ráðuneytið ritað Flugmálastjórn bréf þar sem heimilað var að hefja undirbúning á skráningu loftfara ECA og henni falið að afla svara við ákveðnum spurningum sem ráðuneytið vill fá svör við. Þar á meðal eru spurningar um hvaða áhrif mögulegar æfingar hafa á losunarkvóta Íslendinga.

Spurður hvort hægt sé að stíga skref til baka í ferlinu þar sem það sé komið á þetta stig segir Kristján: „Nú veit ég ekki. Það var bara ákveðið að Flugmálastjórn færi í þessar viðræður."

Í gær átti Kristján síðan aftur fund með Jóhönnu þar sem hann segir að hún hafi spurt hvort hann væri búin að senda Flugmálastjórn bréf þar sem vilyrðið væri veitt. „Síðan var það á fundi með forsætisráðherra í gær þar sem hún hvatti mig til að senda bréfið ef það væri ekki þegar sent. Hún vildi minna mig á þetta," segir hann.

Stefán Pálsson, formaður Félags hernaðarandstæðinga, segir á Facebook-síðu sinni að hann eigi „...ekki orð yfir fáránlegu hefndarbroti Kristjáns Möller. Starfsleyfið til ECA er brot á stjórnarsáttmála og verður ekki látið viðgangast."

Þegar Kristján er spurður hvort það sé rétt að þetta hafi verið hefndaraðgerð þar sem ljóst hafi verið að hann var að kveðja ráðherradóm segir hann hvumsa: „Þetta er svo vitlaust að það er ekki svaravert. Þegar maður er spurður af forsætisráðherra hvort bréfið sé ekki örugglega farið þá segir það allt sem segja þarf."









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×