Innlent

Hitni undir olíu­fé­lögum sem þurfi að passa sig

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra beinir því til olíufélaga að passa sig. Það hitni undir þeim því eldsneytislækkanir séu ekki í takt við aðgerðir ríkisstjórnarinnar. 
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra beinir því til olíufélaga að passa sig. Það hitni undir þeim því eldsneytislækkanir séu ekki í takt við aðgerðir ríkisstjórnarinnar.  Vísir

Forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi búist við meiri lækkunum á eldsneytisverði hjá olíufélögunum samfara því að eldsneytisgjöld og vörugjöld á bensíni voru felld niður um áramótin. Þau þurfi að passa sig. Ríkisstjórnin ætli að ná hallalausum fjárlögum til að ná tökum á verðbólgunni.

Líkt og greint var frá í gær mælist verðbólga nú 5,2 prósent og hefur ekki verið meiri frá því í september árið 2024. Það sem hafði mest áhrif á vísitölu neysluverðs voru breytingar á vörugjöldum bifreiða og upptaka nýs kílómetragjalds.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur lagði áherslu á lækkun vaxta í stefnuyfirlýsingu sinni þegar hún tók við.  Þá kom fram í aðsendri grein á Vísi að Kristrún ætlaði sér að negla niður vexti.  Aðspurð um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi áhrif á verðbólguna nú svarar Kristrún:

„Markmiðið er að ná verðbólgunni niður með langvarandi hætti. Ekki mælingu í eitt skipti vegna þess að við treystum okkur ekki til þess að fara í erfiðar ákvarðanir sem muni laga afkomuna.  Já ég ég geri mér alveg  grein fyrir að hluti af meiri verðbólgu nú er   er að koma til vegna þess að við erum að loka gatinu hjá ríkissjóði. Við erum að treysta tekjugrunn og gera afkomuna sjálfbærari.“ 

Heit olíufélög

Fjármálaráðherra vísaði gagnrýni sem kom fram á Alþingi í gær um að aukningin skýrist af gjaldahækkunum ríkisstjórnarinnar á bug og sagði olíufélög og bílaumboð bera ábyrgðina. Kristrún tekur í sama streng.

„Við sjáum það á tölunum að lækkun á eldsneytisverði er ekki að mæta að fullu þeirri  lækkun sem við bjuggumst við miðað við okkar lækkanir. Þannig að ég set að hluta til ábyrgð á olíufélögin hvað það varðar. Þau þurfa að passa sig þegar kemur að verðlagningu. Ég veit að þau finna hitann af því og ég treysti því að þau geri þetta með sanngjörnum hætti,“ segir Kristrún.

Allir þurfi að leggjast á árarnar

Hún hvetur einnig atvinnulífið til að halda að sér höndum í verðlagningu í baráttunni við verðbólguna.

„Ég hvet alla aðila sem koma að verðlagningu í kerfinu að finna til ábyrðar. Það á við um fyrirtæki, vinnumarkað og ríkisstjórnina, við þurfum að standa okkur,“ segir Kristrún.

Í síðustu Stöðugleikasamningum kom fram að væri verðbólga yfir 4,7 prósentum næsta sumar væru forsendur þeirra brostnar. Kristrún vonar að verðbólgan muni hjaðna á næstu mánuðum.

„Mikilvægast núna er að við höldum plani. Við erum með áætlun um að reka ríkissjóð með sjálfbærum hætti strax á næsta ári. Það skiptir miklu máli að við höldum okkur við það plan í fjármálaáætlun. Ég bind vonir við að verðbólgumælingar muni batna,“ segir Kristrún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×