Innlent

Seinka sýningum fyrir leikinn

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Borgarleikhúsið
Borgarleikhúsið Vísir/Vilhelm

Borgarleikhúsið hefur ákveðið að seinka öllum leiksýningum um korter á morgun svo leikhúsgestir geti horft á fyrri helming af leik Íslands í undanúrslitunum á EM í handbolta.

Hlynur Páll Pálsson, samskiptastjóri Borgarleikhússins, segir breytinguna ekki vera til komna vegna fjölda fyrirspurna um að breyta miðum heldur einungis til að koma til móts við gesti.

„Svo ætlum við að sýna frá leiknum frammi í forsal,“ segir Hlynur.

Til stendur að sýna Moulin Rouge og Niflungahringinn auk þess sem Ekki hugmynd verður frumsýnt.

„Það eru örugglega margir sem hefðu viljað sleppa því að fara í leikhús en það er ekki hægt að sleppa því að fara í leikhús.“

Leikhúsgestir fengu sendan tölvupóst þess efnis að hægt verði að fylgjast með fyrri hálfleiknum í forsal leikhússins. Gera eigi ráð fyrir að sýningar hefjist 20:15.

Þá hefur tónleikum Moses Hightower einnig verið seinkað.

Engin seinkun hjá Þjóðleikhúsinu

Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri segir að nokkrir hafi haft samband við leikhúsið í þeirri von um að færa miðann yfir á annan dag.

„Það hefur verið eitthvað um óskir um að breyta miðunum, bæði hjá okkur og annars staðar. Leikhúsin hafa á undanförnum árum verið að bæta þjónustuna með því að rýmka möguleika á að breyta miðanum eftir að þeir eru keyptir,“ segir Magnús.

Hins vegar segja miðsöluskilmálar leikhúsanna að ekki sé hægt að breyta miðanum seinna en tveimur sólarhringum fyrir sýninguna.

„Þetta helgast af því að það er búið að leggja mikinn kostnað í þessar sýningar og boða fólkið. Ef leikhúsgestir gætu verið að breyta miðunum fram á síðustu stundu yrðu leikhúsin fyrir miklu tekjufalli.“

Þau stefna ekki á að seinka sýningunum líkt og Borgarleikhúsið.

„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um neitt slíkt.“

Karlalandslið Íslands í handbolta á leik á móti liði Danmerkur klukkan 19:30 annað kvöld í undanúrslitum á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×