Erlent

Þjóðvarðlið virkjað eftir að ICE skaut mann til bana

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Óeirðir hafa geisað á götum Minneapolis eftir að maðurinn var drepinn.
Óeirðir hafa geisað á götum Minneapolis eftir að maðurinn var drepinn. EPA

Skýrari mynd er að teiknast upp af af atburðarásinni þegar karlmaður var skotinn til bana af fulltrúum Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna, ICE, í Minneapolis í dag. Þó er enn margt á huldu í tengslum við aðdraganda árásarinnar.

Brian O’Hara lögreglustjóri í Minneapolis sagði á blaðamannafundi fyrr í kvöld að hinn látni væri 37 ára gamall bandarískur ríkisborgari. Áður hafði fréttastofa AP sagt hann 51 árs.

Sjá einnig: Annar maður skotinn til bana af ICE

Héldu honum niðri og slógu

O’Hara sagði takmarkaðar upplýsingar að fá um aðdraganda skotárásarinnar. Lögregla hefur veitt þær upplýsingar að maðurinn hafi verið skotinn eftir að hann vatt sér upp að alríkisfulltrúa vopnaður skammbyssu. Ekki var tilgreint hvort hann hafi miðað byssunni að þeim en á myndbandsupptökum af atvikinu virðast löggæslumennirnir einir vopnaðir byssum. 

Á upptökunum má sjá að minnsta kosti fimm starfsmenn ICE beita manninn táragasi, yfirbuga hann og halda honum niðri á jörðinni meðan þeir slá hann. Þá sést einn þeirra draga upp byssu og skjóta nokkur skot. Í heildina heyrast að minnsta kosti tíu skothvellir. 

Loks sjást starfsmennirnir bakka frá manninum, sem liggur hreyfingarlaus á jörðinni, en vinda sér aftur að honum og hefja endurlífgunartilraunir. Mótmælendur hrópa á mennina: „Hvað hafið þið gert?“

O’Hara sagði ICE-fulltrúann sem skaut manninn til bana hafa verið fyrrverandi landamæravörð. 

AP hefur eftir fjölskyldu hans að hinn látni sé Alex Jeffrey Pretti, 37 ára gamall hjúkrunarfræðingur sem starfaði á gjörgæsludeild. Honum er lýst sem áhugamanni um útivist sem hafði miklar áhyggjur af aðgerðum Trump-stjórnarinnar í Minneapolis.

Alex Jeffrey Pretti, 37 ára bandarískur ríkisborgari var drepinn af fulltrúum ICE í dag.AP

Pretti hafði tekið þátt í mótmælum í borginni eftir morð ICE á Renee Good, óbreyttum borgara í Minneapolis, fyrr í mánuðinum. Samkvæmt AP var Pretti með hreint sakavottorð og hafði aldrei komist í kast við lögin að undanskildum nokkrum hraðasektum.

Óeirðir brutust út í borginni eftir að maðurinn var drepinn og átök hafa geisað milli borgara og starfsmanna ICE. Hundruð manna hafa safnast saman við morðvettvanginn og lögregla hefur handtekið nokkurn fjölda mótmælenda. Þjóðvarðalið Minnesota hefur verið kallað út til þess að aðstoða lögreglu meðan á óeirðunum stendur. 

Særður mótmælandi er færður í pallbíl af alríkisstarfsmönnum.EPA

Sex vikur eru síðan fulltrúar ICE tóku til starfa í Minnesota-fylki með það að markmiði að handtaka alla glæpamenn og ólöglega innflytjendur. Þann 7. janúar var hin 37 ára gamla Renee Good skotin til bana af fulltrúum ICE. Í framhaldinu hefur mikill fjöldi fólks mótmælt í Minnesota. Í gær voru tugir handteknir fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu meðan á mótmælunum stóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×