Íslenski boltinn

Rugluðust á nafni nýja leik­mannsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erin Flurey en ekki Erin Fleury verður í framlínu Þór/KA næsta sumar.
Erin Flurey en ekki Erin Fleury verður í framlínu Þór/KA næsta sumar. thorka.is

Þór/KA kynnti fimm nýja leikmenn í gær en félagið þurfti að senda frá sér leiðréttingu daginn eftir.

Sóknarmaðurinn Erin Fleury var annar tveggja nýrra erlendra leikmanna félagsins en það var ekki alveg hennar rétt.

„Okkur varð á í gær að stafa nafn einnar af nýju knattspyrnukonunum okkar rangt. Hér með leiðréttist og áréttast að eftirnafnið er Flurey, ekki Fleury. Biðjumst afsökunar á þessum mistökum,“ sagði í tilkynningu á miðlum Þór/KA.

Norðankonur vonast nú til þess að allir þekki rétt nafn Flurey þegar hún fer að raða inn mörkum í Bestu deildinni næsta sumar.

Erin Flurey kemur til félagsins eftir að hafa spilað með bandarískum háskólaliðum í Syracuse í New York-ríki og nú síðast Auburn í Texas í Bandaríkjunum.

Erin er frá Manchester í New Hampshire þar sem hún hóf knattspyrnuferilinn. Hún spilaði með háskólaliði Syracuse-háskólans í New York 2021-2023.

Eftir það samdi hún við Florida State-háskólann, mjög öflugan íþróttaskóla, þar sem hún spilaði sýningarleiki vorið 2025 áður en hún ákvað að skipta yfir í Auburn University í Texas þar sem hún spilaði með Auburn Tigers.

Erin kveðst hafa orðið mjög spennt og glöð þegar þetta tækifæri kom til. „Þegar tækifærið til að spila á Íslandi bauðst fylltist ég spennu og gleði. Möguleikinn á að spila í efstu deild á Íslandi og vaxa bæði sem leikmaður og manneskja erlendis ýtti mjög við mér. Þetta er einstakt tækifæri til að takast á við áskoranir á hærra stigi á sama tíma og ég tek nýrri menningu og umhverfi opnum örmum,“ sagði Erin Flurey í viðtali við heimasíðu Þór/KA.

Erin er líkamlega sterkur leikmaður og kveðst vera mikil keppnismanneskja með óþrjótandi vilja til að vinna. „Ég legg stolt mitt í baráttu og vilja til að gera hvað sem þarf til að liðið nái árangri. Ég hef sterka sýn í sóknarleiknum sem gerir mér kleift að skapa tækifæri fyrir bæði mig sjálfa og liðsfélagana,“ sagði Flurey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×