Draumabyrjun hjá Carrick

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bryan Mbeumo fagnar eftir að hafa komið Manchester United yfir gegn Manchester City.
Bryan Mbeumo fagnar eftir að hafa komið Manchester United yfir gegn Manchester City. getty/Joe Prior

Michael Carrick fékk sannkallaða draumabyrjun sem þjálfari Manchester United en liðið lagði Manchester City að velli, 2-0, í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Bryan Mbeumo og Patrick Dorgu skoruðu mörkin í seinni hálfleik.

City var meira með boltann í leiknum á Old Trafford í dag en United fékk mun fleiri og betri færi.

Strax á 3. mínútu skallaði Harry Maguire í slána og Gianluigi Donnarumma varði svo vel frá Dorgu. Max Alleyne komst næst því að skora fyrir City en Senne Lammens varði frá honum.

Amad Diallo og Bruno Fernandes komu boltanum í netið í fyrri hálfleik en mörkin voru dæmd af vegna rangstöðu.

United hélt áfram að ógna í seinni hálfleik en Donnarumma varði í þrígang vel.

Hann kom þó engum vörnum við þegar Mbeumo skoraði eftir skyndisókn og sendingu frá Fernandes á 65. mínútu.

Ellefu mínútum síðar sendi varamaðurinn Matheus Cunha fyrir frá hægri inn á vítateiginn þar sem Dorgu stakk sér fram fyrir Rico Lewis og skoraði. Diallo var nálægt því að gera þriðja mark United á lokamínútunni en skaut í stöng.

Mason Mount, sem var nýkominn inn á sem varamaður, skoraði í uppbótartíma en markið var dæmt af. Alls voru því þrjú mörk dæmd af United í leiknum í dag.

Eftir sigurinn er United í 4. sæti deildarinnar með 35 stig en City er í 2. sætinu með 43 stig, sex stigum á eftir toppliði Arsenal. City hefur ekki unnið í fjórum leikjum í röð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira