Innlent

Fann kattarhræ í marg­nota poka úti í hrauni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Búið var að setja grjót ofan á pokann, sem var endurnýtanlegur og hefði því ekki brotnað svo auðveldlega niður í náttúrunni.
Búið var að setja grjót ofan á pokann, sem var endurnýtanlegur og hefði því ekki brotnað svo auðveldlega niður í náttúrunni. Ívar Örn Bergsson

Ómögulegt er að segja til um það hvað varð ketti sem fannst í poka í hrauninu í Helguvík í Reykjanesbæ að aldurtila. Að sögn starfsmanns Dýralæknastofu Suðurnesja er allt eins líklegt að honum hafi verið komið þar fyrir af eigendum sínum.

Málið vakti nokkra athygli í Facebook-hópnum Týndir kettir en þar tilkynnti Ívar Örn Bergsson um fundinn eftir að hundur hans þefaði hræið uppi í göngutúr.

„Við höfum farið þarna mjög oft og hann er mjög fundvís,“ segir Ívar um hvutta. „En það var ekkert djúpt á þessu, þetta var undir einhverju grjóti.“

Ívar hafði samband við lögreglu, sem sagðist myndu senda einhvern í göngutúr eftir kettinum. Sjálfur var Ívar ekki í aðstöðu til að taka hann með sér.

Hræið fannst skammt frá vegi.Ívar Örn Bergsson

Það fór þó á endanum svo að það var einn meðlima hópsins Týndir kettir sem fór og sótti pokann og kom honum á Dýralæknastofu Suðurnesja. Kötturinn reyndist ekki örmerktur né með ól og var orðinn heldur illa farinn. 

Samkvæmt upplýsingum sem fréttastofa fékk hjá dýralæknastofunni er afar algengt að þeim berist dýrahræ, sem ómögulegt sé að rannsaka nánar til að komast að dánarorsök. Vinnulagið er að athuga hvort dýrin séu örmerkt þannig að hægt sé að koma þeim í hendur eigenda en þau fara annars til heilbrigðiseftirlitsins, sem kemur þeim til Kölku þar sem þau eru brennd.

Ýmsar vangaveltur eru uppi á Facebook um það hvað varð kettinum að aldurtila; til að mynda hvort hann varð fyrir bíl eða hvort honum var komið fyrir kattarnef. 

Starfsmaður Dýralæknastofu Suðurnesja sagði hins vegar vel mögulegt að um væri að ræða dýr sem hefði dáið af náttúrulegum orsökum og verið komið fyrir undir grjótinu af fjölskyldu sinni. Ekki ætti að lesa of mikið í það að pokinn sem dýrið fannst í var margnota og hefði verið ansi langan tíma að brotna niður.

„Fólk fer með dýrin til dæmis að Stapafelli og þar og er að grafa þau úti í móa. Það eru örugglega kettir hér út um allt grafnir í jörðu,“ sagði starfsmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×