Innlent

Þóttist vera borgar­starfs­maður og sveik út síma og verk­færi

Kjartan Kjartansson skrifar
Maðurinn sveik meðal annars tvo Samsung Galaxy S22-snjallsíma út úr verslun með því að þykjast vera starfsmaður Reykjavíkurborgar. Þá blekkti hann starfsmenn annarra verslana til að fá sér fjóra Iphone 13 snjallsíma.
Maðurinn sveik meðal annars tvo Samsung Galaxy S22-snjallsíma út úr verslun með því að þykjast vera starfsmaður Reykjavíkurborgar. Þá blekkti hann starfsmenn annarra verslana til að fá sér fjóra Iphone 13 snjallsíma. Vísir/EPA

Karlmaður náði að svíkja út síma og verkfæri fyrir hundruð þúsunda króna úr verslunum með því að villa á sér heimildir sem starfsmaður Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Hann hlaut fimm mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir skjalafals og fjársvik.

Svikin framdi maðurinn með því að látast vera starfsmaður sveitarfélaganna og framvísa fölsuðum innkaupabeiðnum frá þeim tvo daga í ágúst árið 2022.

Á þennan hátt sveik hann sex snjallsíma með söluverðmæti sem nam rúmum 1,2 milljónum króna samtals út úr verslunum. Símarnir voru ranglega skuldfærðir á viðskiptareikning Reykjavíkurborgar en verslanirnar fengu þá aldrei greidda.

Þá blekkti maðurinn starfsmenn verslana til þess að afhenda sér ýmis verkfæri og skópar sem saman voru metin á rúma milljón króna. Verkfærin voru skuldfærð á Reykjavíkurborg en þrjú Scarpa-skópör á Kópavogsbæ.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir smáþjófnað, hraðakstur og ölvunar- og vímuefnaakstur.

Sviptur réttindum ævilangt fyrir tæpum áratug

Upphaflega lýsti maðurinn sakleysi sínu af skjalafalsinu og fjársvikunum en játaði umferðarlagabrotin og smáþjófnaðinn. Síðar venti hann kvæði sínu í kross og játaði öll brotin.

Játning var metin honum til málsbóta en á hinn bóginn var litið til þess að hann hefði verið sakfelldur fyrir ítrekuð skjalafalsbrot og ítrekaðan akstur undir áhrifum. Fram kemur í dómnum að hann hafi þrisvar gengist undir lögreglustjórasátt vegna vímuefnaaksturs frá árinu 2015. Þá hafi hann verið sviptur ökuréttindum ævilangt og dæmdur í þrjátíu daga fangelsi vegna þess árið 2016.

Maðurinn var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og ævilöng svipting ökuréttar hans var áréttuð. Hann þarf einnig að greiða einu fyrirtækjanna sem hann svindlaði á rúmar 323 þúsund krónur auk rúmlega 800 þúsund króna í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×