Enski boltinn

Fæstir leikir hjá Man Utd síðan í fyrri heims­styrj­öld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn ungi Shea Lacey hjá Manchester United fékk rauða spjaldið í bikartapinu á móti Brighton & Hove Albion.
Hinn ungi Shea Lacey hjá Manchester United fékk rauða spjaldið í bikartapinu á móti Brighton & Hove Albion. Getty/Carl Recine

Manchester United féll í gær út úr ensku bikarkeppninni eftir tap fyrir Brighton & Hove Albion á heimavelli.

Það þýðir að United féll út báðum bikarkeppnunum í fyrstu tilraun á þessari leiktíð.

Liðið hafði óvænt dottið út úr enska deildabikarnum á móti D-deildarliði Grimsby Town í lok ágúst.

Leikurinn í gær var fyrsti leikur United í enska bikarnum á leiktíðinni og Brighton fór heim með 2-1 sigur sem gaf suðurstrandarliðinu sæti í fjórðu umferðinni.

Slakur árangur á síðustu leiktíð þýddi að United var ekki með í neinni Evrópukeppni. Það voru því engir Evrópuleikir á þessu tímabili.

Eftir standa því aðeins deildarleikirnir sem verða alltaf 38 talsins.

Manchester United mun því aðeins spila samanlagt fjörutíu keppnisleiki á tímabilinu 2025-26.

Þetta verða því fæstir leikir hjá United á einu tímabili síðan í fyrri heimsstyrjöldinni 1914-15 eða fyrir meira en hundrað árum síðan.

United lék 39 leiki á tímabilinu 1914-15, 38 leiki í deildinni og liðið féll síðan út við fyrstu hindrun í enska bikarnum á móti The Wednesday, sem er forveri Sheffield Wednesday.

Á síðasta tímabili lék Manchester United til samanburðar sextíu leiki, 38 leiki í deildinni, þrjá leiki í bikarnum, þrjá leiki í deildabikarnum, einn leik um Samfélagskjöldinn og fimmtán leiki í Evrópukeppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×