Enski boltinn

Bað Liverpool-leikmanninn af­sökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Conor Bradley situr meiddur á vellinum en Gabriel Martinelli er mjög ósáttur með hann.
Conor Bradley situr meiddur á vellinum en Gabriel Martinelli er mjög ósáttur með hann. Getty/Marc Atkins

Gabriel Martinelli, leikmaður Arsenal, sagðist vera „innilega miður sín“ fyrir að hafa ýtt Conor Bradley út af vellinum í leik Arsenal og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

Martinelli sagðist enn fremur hafa beðið alvarlega meiddan varnarmann Liverpool afsökunar í einrúmi. Martinelli kastaði boltanum í Bradley og hrinti honum þar sem hann lá á grasinu undir lok 0-0 jafnteflisins á Emirates á fimmtudaginn.

„Til skammar“

Martinelli fékk gult spjald fyrir atvikið sem vakti reiði leikmanna Liverpool. Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, kallaði Martinelli „til skammar“ á Sky Sports.

@gabriel.martinelli

Til að bregðast við gagnrýninni birti Martinelli færslu á Instagram-reikningi sínum og skrifaði: „Við Conor höfum sent hvor öðrum skilaboð og ég hef þegar beðið hann afsökunar. Ég áttaði mig í raun ekki á því í hita leiksins að hann væri alvarlega meiddur,“ skrifaði Martinelli.

Miður mín yfir viðbrögðum mínum

„Ég vil segja að ég er innilega miður mín yfir viðbrögðum mínum. Sendi Conor aftur mínar bestu óskir um skjótan bata,“ skrifaði Martinelli.

Áður en Martinelli birti færsluna á samfélagsmiðlum varði Mikel Arteta, stjóri Arsenal, leikmann sinn.

Á blaðamannafundi eftir leikinn sagði Arteta: „Eins og ég þekki Gabi er hann ótrúlegur og yndislegur strákur og hann áttaði sig líklega ekki á því hvað gerðist. Ég vona að Conor sé heill heilsu, ég mun ræða við hann til að skilja þetta. Líklega áttaði (Martinelli) sig ekki á því hvað gerðist,“ sagði Arteta.

„Ég óttast það versta fyrir Conor Bradley“

Bradley skaut í þverslána í fyrri hálfleik í spennuþrungnum leik en nú lítur út fyrir að hann verði frá keppni um nokkurt skeið.

„Ég óttast það versta fyrir Conor Bradley. Ég veit það ekki enn en hann þurfti að fara af velli á sjúkrabörum. Við verðum að bíða eftir myndatökunni til að sjá hvort þetta sé svo slæmt,“ sagði Arne Slot, stjóri Liverpool.

Um viðbrögð Martinelli sagði Slot: „Ég þekki ekki Gabriel Martinelli en hann virkar eins og góður strákur.“

„Vandinn í fótbolta almennt er að það er svo mikil tímasóun og leikmenn þykjast vera meiddir að það getur pirrað mann að halda að leikmaður sé að tefja,“ sagði Slot.

Ekki hægt að ætlast til þess að Martinelli hugsi svo skýrt

„Það er ekki hægt að ætlast til þess að Martinelli hugsi svo skýrt á 94. mínútu. Ég er hundrað prósent viss um að ef hann hefði vitað hversu alvarleg meiðslin gætu verið, hefði hann aldrei gert þetta,“ sagði Slot.

Jafntefli Arsenal gegn Liverpool kemur þeim sex stigum á undan Manchester City. Ríkjandi meistarar eru 14 stigum á eftir skyttunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×