Enski boltinn

Guardiola pirraður: „Við vorum frá­bærir í vörn og sókn“

Sindri Sverrisson skrifar
Pep Guardiola og hans menn í Manchester City gætu verið komnir átta stigum á eftir toppliði Arsenal annað kvöld.
Pep Guardiola og hans menn í Manchester City gætu verið komnir átta stigum á eftir toppliði Arsenal annað kvöld. GettyGeorge Wood

Titilvonir Manchester City hafa dvínað mikið með þremur jafnteflum í röð og var Pep Guardiola síður en svo hress í viðtali eftir 1-1 jafnteflið við Brighton í kvöld, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Úrslitin þýða að Arsenal getur með sigri í stórleiknum gegn Liverpool annað kvöld náð átta stiga forskoti á City og Aston Villa á toppi deildarinnar, sem skýrir af hverju Guardiola var oft ansi stuttur í spunann í viðtalinu eftir leik.

„Úrslitin eru eins og þau eru og þetta var svipað og í síðustu tveimur leikjum. Við spiluðum stórkostlega og orkan var mikil síðustu 15-20 mínúturnar en við klikkuðum á mörgum færum. Þetta eru sanngjörn úrslit því það er hluti af leiknum að skora mörk og við gerðum það ekki,“ sagði Guardiola.

Aðspurður hvort það hefði áhrif á menn í færunum hve mikið væri í húfi, nú þegar liðið mætti illa við að misstíga sig, svaraði Spánverjinn stutt:

„Við skoruðum ekki. Það er allt og sumt.“

Hann vildi heldur ekkert vera að kenna um miklum forföllum í vörninni:

„Vandamálið er ekki í vörninni. Við skoruðum ekki úr færunum sem við fengum, eins og í síðustu leikjum.“

Spyrillinn spurði þá hvort að menn þyrftu ekki að reyna að halda ró sinni og hélt Guardiola að spurningin beindist að honum sjálfum:

„Ég mun ekkert breytast. Ég er of gamall.“ En hvað með leikmennina?

„Leikmennirnir stóðu sig frábærlega. Ég elska hvernig við spiluðum. Við vorum frábærir í vörn og sókn, en við skoruðum ekki.“

En er City enn með í titilbaráttunni?

„Við höfum ekki unnið í síðustu þremur leikjum og þá verður þetta erfiðara en við höldum bara áfram,“ sagði Guardiola og var þá byrjaður að andvarpa nokkuð og gaf lítið af sér í lokaspurningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×