Enski boltinn

Logi Berg­mann náði í 77 stig þrátt fyrir lík­legt Fantasy-slys

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Logi Bergmann Eiðsson átti góða umferð í Fantasy.
Logi Bergmann Eiðsson átti góða umferð í Fantasy. vísir/vilhelm

Stjörnulið vikunnar var á sínum stað í nýjasta þætti Fantasýnar, hlaðvarps Sýnar um Fantasy-leik ensku úrvalsdeildarinnar. Að þessu sinni fóru strákarnir yfir Fantasy-lið fjölmiðlamannsins Loga Bergmanns Eiðssonar.

Albert Þór Guðmundsson byrjaði á afsaka sig með því að illa hafi gengið hjá viðkomandi Fantasy-stjórum í þeirri umferð þegar liðin þeirra hafi verið tekin fyrir í Stjörnuliði vikunnar. Hann reyndi því að velja einhvern sem gekk vel í nýafstaðinni umferð og Logi varð fyrir valinu.

Logi gerði áhugaverðar breytingar á Fantasy-liðinu sínu fyrir umferðina, meðal annars tvær á miðjumönnum Chelsea, Enzo Fernández og Moses Caicedo.

„Enzo kom inn fyrir Caicedo en svo fór Enzo út fyrir Casemiro. Ég skil ekki alveg hvað gerðist þar en kannski kom einhver orðrómur um að Enzo væri meiddur sem ég missti af,“ sagði Albert.

„Svo var þetta ansi óheppileg sala. [Declan] Rice út fyrir Bruno Guimaraes en samt tók liðið 77 stig,“ bætti Albert við.

Nokkuð vel gert

Bruno Guimaraes fékk vissulega tíu stig en Rice halaði inn sautján. Hann var stigahæstur í liðinu hans Loga ásamt þriggja marka manninum Igor Thiago hjá Brentford.

„Þetta er leiðin að 77 stigum,“ sagði Albert. Róbert Daði Hansson greip þá boltann.

„Þetta er nokkuð vel gert. Ég er samt hissa á að [Morgan] Rogers sé á bekknum,“ sagði Róbert.

Hefur verið eitthvað slys

Félagarnir ræddu aðeins nánar um Chelsea-fléttuna hjá Loga og veltu því fyrir sér hvort um mistök hafi verið að ræða.

„Ég er að kíkja á hvenær hann gerði þetta. Hann henti Caicedo út fyrir Enzo og Enzo út fyrir Casemiro. Þetta hefur verið eitthvað slys. Ég held að hann hafi verið að leika sér og óvænt ýtt á staðfesta og kannski ekki áttað sig á því. Þetta getur gerst,“ sagði Albert.

Hlusta má á nýjasta þátt Fantasýnar hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×