Innlent

Spunaleikari vill annað sæti Sam­fylkingarinnar í borginni

Agnar Már Másson skrifar
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir vann áður hjá Stígamótum en réði sig svo til Aton JL. Hún re spunaleikari hjá Improv Ísland.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir vann áður hjá Stígamótum en réði sig svo til Aton JL. Hún re spunaleikari hjá Improv Ísland. Aðsend

Samskiptasérfræðingurinn og spunaleikarinn Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir gefur kost á sér í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún er formaður kvennahreyfingar flokksins og langar að leysa leikskólamálin í „eitt skipti fyrir öll.“

Steinunn greinir frá þessu í tilkynningu til fjölmiðla. Hún býður sig þriðji frambjóðandinn til að gefa kost á sér í sætið á eftir Skúla Helgasyni borgarfulltrúa og Bjarnveigu Birtu Bjarnadóttur, rekstrarstjóra Tulipop og fulltrúa ungliðaflokksins.

„Ég brenn sérstaklega fyrir því að leysa leikskólamálin í eitt skipti fyrir öll. Reykjavík á að geta boðið öllum börnum tímanlega upp á pláss í leikskóla og tryggt gott starfsumhverfi fyrir starfsfólk þeirra,“ skrifar Steinunn í tilkynningu.

Steinunn er með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá Columbia University í New York og BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands.

Hún er í dag ráðgjafi hjá Aton JL og var talskona Stígamóta um árabil, auk þess sem hún er formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar. Hún hefur einnig gegnt starfi skrifstofustýru UN Women í Japan og verið framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Þá er hún einnig spunaleikari hjá Improv Ísland.

„Öruggt húsnæði er grundvöllur allrar velferðar. Reykjavík á að tryggja raunverulegt aðgengi að öruggu og hagkvæmu húsnæði, sérstaklega fyrir ungt fólk, ungar fjölskyldur og einstæða foreldra. Til þess þarf fjölbreytt framboð, uppbyggingu sem tekur mið af þörfum fólks og áframhaldandi stuðning við óhagnaðardrifin leigufélög svo fólk hafi raunverulega valkosti.“

Hún kveðst leggja áherslu á að Reykjavík sé rekin af ábyrgð og skynsemi.

„Rekstur Reykjavíkur á að vera traustur og gagnsær, þar sem forgangsraðað er í grunnþjónustu sem skiptir fólk máli. Við eigum að sinna viðhaldi áður en vandamál verða að krísum, einfalda ferla og fjarlægja óþarfa hindranir – hvort sem fólk er að byggja sér heimili, reka fyrirtæki eða skapa ný tækifæri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×