Erlent

Íranir óttist „Sýrlandsvæðingu“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mótmælin hafa staðið yfir í fimm daga.
Mótmælin hafa staðið yfir í fimm daga. AP

Íslenskur sérfræðingur í málefnum Írans segir ört vaxandi verðbólga meginorsök götubardaga og fjölmennra mótmæla víða um Íran undanfarna fimm daga. Kaupsýslumenn í Teheran hófu mótmælin en hafa nú breiðst um allt landið.

Ríalinn, gjaldmiðill Írans, hrundi nýverið gagnvart Bandaríkjadal en efnahagsástandið í landinu vr bágt fyrir. Trump Bandaríkjaforseti setti auknar viðskiptaþvinganir á Írani þegar hann hóf aðra embættistíð sína í upphafi síðasta árs og verð á nauðsynjavörum hefur í kjölfarið hækkað um rúm 40 prósent á árinu sem leið.

Fréttir hafa borist frá ólíkum landshlutum að fólk hafi látist í götubardögum við lögreglu og að ólgan vaxi hægt og þétt. Mótmælin eru þau viðamestu frá mótmælunum 2022 sem brutust út eftir að unglingsstúlkan Mahsa Amini lést í varðhaldi siðgæðalögreglunnar fyrir að fela andlit sitt ekki nægilega vel með blæju sinni.

Verðbólgan erfið að eiga við

Kjartan Orri Þórsson lærði írönsk fræði í Kaupmannahöfn og var einnig búsettur í Íran um tíð. Hann hefur kennt námskeið við Háskóla Íslands um Íran, sögu þess og bókmenntir. Hann segir dýrtíð kveikjuna á mótmælunum sem breiddust svo hratt út þegar stúdentar fylktu út á götur Teherans og annarra stórborga.

„Það eru blikur á lofti um að staðan sé að verða ansi alvarleg. Mótmælin byrja á sunnudaginn. Það eru kaupmenn sem slá í borðið og segja að verðbólgan sé að ríða þeim að fullu en stjórnvöld geta ekki með góðu móti brugðist við þegar innflutningsgjöld og viðskiptaþvinganir eru á þeim,“ segir hann.

Þjóðin óttist upplausn

Kjartan segir taumhald klerkastjórnarinnar á þjóðinni ekki vera neinu sérstöku dálæti að þakka, en vitanlega séu margir Íranir upp á stjórnina komnir hvað atvinnu varðar.

„Það sem fólk óttast, sérstaklega eftir hernaðaríhlutanir Bandaríkjanna og Ísrael, er hvað tekur við ef klerkastjórnin fer. Fáum við gamla kónginn aftur? Hann fór í heimsókn til Netanjahú áður en þetta allt gekk á. Hann er búinn að búa í Bandaríkjunum síðan 1980 og þykir ekki endilega í tengslum við íranskan almenning,“ segir Kjartan.

Íranir óttist að ekki verði um frelsisstríð að ræða.

„Menn tala um Sýrlandsvæðingu og Lýbíuvæðingu. Þetta endi einhvern veginn svoleiðis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×