Fótbolti

Stuðnings­maður stendur heilu leikina eins og stytta

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stuðningsmaðurinn frá Kongó hefur vakið mikla athygli.
Stuðningsmaðurinn frá Kongó hefur vakið mikla athygli. Chris Milosi/Anadolu via Getty Images

Stuðningsmaður Austur-Kongó hefur slegið í gegn á Afríkumótinu í fótbolta fyrir ótrúlega þrautseigju. Maðurinn stendur eins og stytta í heilan fótboltaleik, til heiðurs Patrice Lumumba, sjálfstæðishetju þjóðarinnar.

Michel Kuka Mboladinga hefur hlotið viðurnefnið „Lumumba“ en hann hefur mætt á alla þrjá leiki Austur-Kongó, klæddur í gul jakkaföt og með hönd á lofti, til að líkja eftir þjóðhetjunni.

Patrice Lumumba var fyrsti forsætisráðherra Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó og leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar þar í landi en hann var myrtur árið 1961.

Michael stóð fyrst sem stytta á fyrsta leik Austur-Kongó gegn Benín, sem endaði með 1-0 sigri og alls 115 mínútna leik með uppbótartíma.

Enga þreytu virtist þó finna hjá Michael í næsta leik gegn Senegal sem endaði með 1-1 jafntefli og hann var aftur mættur, með höndina á lofti og staður sem steinn, í 3-0 sigri Austur-Kongó gegn Botswana í gærkvöldi.

Tvö hundruð metra há stytta af Patrice Emery Lumumba stendur við flugvöllinn í Kinshasa, höfuðborg Austur-Kongó.

Austur-Kongó komst þar með áfram í sextán liða úrslit þar sem liðið mun mæta Alsír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×