Innlent

Víðir hefur nú loks tíma fyrir Lunch United

Jakob Bjarnar skrifar
Uppsögnin á Víði kom flatt upp á flesta þá sem til þekkja.
Uppsögnin á Víði kom flatt upp á flesta þá sem til þekkja. vísir/lýður valberg

Það kom mörgum sem til þekkja í opna skjöldu þegar fréttist í gær að Víðir Sigurðsson íþróttafréttamaður hefði fengið reisupassann uppi í Hádegismóum en hann hefur starfað á Morgunblaðinu í 26 ár.

„Nei, ég fékk engar vísbendingar um ástæður uppsagnarinnar á fundi með yfirmönnum, ekki í sjálfu sér,“ segir Víðir í samtali við Vísi.

Eftirgrennslan leiðir í ljós að auk þeirra Kolbrúnar Bergþórsdóttur menningarblaðamanns og pistlahöfundar og Víðis hafa þrír aðrir starfsmenn, sölumenn á markaðsdeildinni, fengið uppsagnarbréf. 

Mánuðurinn er ekki liðinn og boðað hefur verið til starfsmannafundar á Mogganum klukkan 14. Við erum að reyna að fá botn í uppsögn Víðis, hvort hún þýði að til standi að skera niður í rekstrinum og þá hjá íþróttadeildinni. Víst er að starfsemin er komin inn að beini.

„Við vorum fjórir fastráðnir á deildinni. Einum var sagt upp í nóvember og þá sátum við eftir þrír. Við vorum að reyna að laga okkur að breyttri stöðu og komnir á braut með það. Nú sitja þeir eftir tveir og ég veit ekki hvernig þeir ætla að komast yfir að dekka það sem við ætluðum okkur. Hvernig þeir ætla að vinna úr því hef ég ekki minnstu hugmynd um,“ segir Víðir.

Og hann bætir við:

„Mér gæti ekki verið meira sama í dag. Þetta er nú þeirra mál í dag. Minn metnaður var fólginn í því að vera með mestar og bestar íþróttafréttir, nú fer ég að hugsa um eitthvað annað.“

Uppsögnin ekki frammistöðutengd

Ekki hefur ekki heyrst af fleiri blaðamönnum sem fengu að fjúka. Þremur var sparkað fyrir tveimur mánuðum og þá sögðu yfirmenn að rekstrarlega væru þeir komnir fyrir vind en nú renna á menn tvær grímur með það. Víðir er orðinn 65 ára gamall og á aðeins eftir tvö ár í eftirlaun. 

Kolbrún sagðist í samtali við Vísi að sér væri sama um sig, hún væri á grænni grein en það væri verra með Víði, hann væri hamhleypa og stjarna.

„Kolla er yndisleg,“ segir Víðir þegar þetta er borðið undir hann.

„Nei, enda var sagt að uppsögnin væri ekki frammistöðutengd heldur fjárhagsörðugleikatengd. Ég var fullvissaður um það í þessu viðtali sem ég fór í og vil leyfa mér að trúa því.“

Víðir á grænni grein

Víðir fær hálft ár í uppsagnarfrest og svo á hann einhvern slatta inni í orlofi.

„Ég er á grænni grein,“ segir Víðir og öðrum þræði má greina að hann sé feginn. „Ég átti að vinna í kvöld, ég hefði verið að vinna á nýársdag, en nú á ég betri áramót en til stóð.“

Víðir var fullvissaður um það á fundi að uppsögnin væri ekki frammistöðutengd, heldur væri blaðið að mæta fjárhagsörðugleikum.vísir/lýður valberg

Víðir segir nægan tíma fyrir höndum til að hugsa sitt ráð.

„Ég vann þarna í einhver 26 ár og átti mjög góðan tíma, mér leið vel allan tímann. Þetta er góður vinnustaður og gott fólk. Maður hefur fengið endalaust góðar kveðjur frá því á hádegi í gær sem maður kann vel að meta. Ég kveð þetta fyrirtæki bara stoltur, ekkert annað.“

Gekk vel að skrifa bækurnar samhliða blaðamennskunni

Eins og fram hefur komið hefur Víðir, samhliða blaðamennskunni á Morgunblaðinu, gefið árlega út bækurnar Íslensk knattspyrna og notaði það frí sem gafst til að skrifa þær bækur.

„Ég vann oftast mánudaga og föstudaga, gíraði mig niður í tveggja daga vinnuviku í október og nóvember og notaði þriggja mánaða fríið í það. Ég mjatlaði það niður í þetta. Það gekk vel saman við bókarskrifin. Ég var aldrei í burtu neitt nema síðustu vikuna áður en maður henti bókinni í prentun.“

Sú síðasta var sú 45. en ritröðin hefur komið út frá 1981.

„Ég tók alfarið við árbókinni 1982, og tók við henni af Sigga Sverris gamla þungarokkaranum af Skaganum. Hann byrjaði á þessu. Við unnum að bókinni saman 1981 og svo tók ég alfarið við henni.“

45 ár síðan honum var sagt upp störfum síðast

Víðir segir nú 45 ár síðan honum var sagt upp síðast. Það var á sögulegum tíma í fjölmiðlasögunni, þegar Vísir og Dagblaðið voru sameinuð.

Víðir á æfingu með Lunch United. Hann segist nú loksins hafa tíma til að sinna þeim fræga félagsskap af heilum hug, eftir að tímanum á Mogga lauk í gær.vísir/lýður valberg

„Já, 27. nóvember 1981. Þá er ég á gamla Dagblaðinu. Þá er þessi fræga nótt þegar veggirnir eru brotnir niður og búið að sameina blöðin að morgni næsta dags. Ég missti vinnuna eins og svo margir aðrir. Ég var nýliði. Þá fór ég á Þjóðviljann og var þar í ein sjö ár. Þá fór ég á DV, eða í ársbyrjun 1988 og var þar í 12 ár. Og svo á Moggann 2000. Þetta er ferillinn í grófum dráttum.“

Þarna verður Víðir að slíta samtalinu því hann var orðinn of seinn í fótboltann en hann er í hinum fræga fótboltaklúbbi Lunch United ásamt Agli Erni Jóhannssyni sem er formaður, Einari Kárasyni, Friðriki Þór Friðrikssyni og fleiri frægum köppum. „Nú get ég farið að mæta eins og maður á æfingar þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×