Fyrsta mark Wirtz í þriðja sigrinum í röð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Wirtz er kominn á blað.
Wirtz er kominn á blað. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Liverpool vann 2-1 sigur á lánlausu botnliði Wolves á Anfield í ensku úrvalsdeildinni. Diogo Jota var heiðraður sérstaklega af stuðningsmönnum sinna tveggja fyrrum félaga.

Miklar tilfinningar voru fyrir leik þar sem lið Diogo Jota á Englandi áttust við í fyrsta sinn eftir fráfall hans í sumar. Synir Jota, Dinis og Duarte, sem eru fjögurra og tveggja ára gamlir, leiddu leikmenn inn á völlinn ásamt frændsystkinum sínum.

Stuðningsmenn Úlfanna sungu þá lag um Portúgalann á 18. mínútu og stuðningsmenn Liverpool tóku við á 20. mínútu. Jota klæddist treyju númer 18 hjá Wolves en 20 hjá Liverpool.

Synir Jota ásamt frændsystkinum sínum fyrir leik.Peter Byrne/PA Images via Getty Images

Hvað leikinn sjálfan varðar mættu Úlfarnir bognir á Anfield þar sem þeir hafa átt sögulega slakt tímabil hingað til. Wolves sat á botni deildarinnar með tvö stig og hafði tapað ellefu leikjum í röð fyrir þann í dag.

Líkt og búast mátti við lágu þeir neðarlega og komu í veg fyrir að Púllarar sköpuðu sér of góð færi lengi vel. Fyrsta skot heimamanna á mark kom ekki fyrr en á 41 mínútu.

Úr því skoti skoraði Hollendingurinn Ryan Gravenberch eftir stoðsendingu frá landa hans Jeremie Frimpong, sem var að byrja fyrsta leik sinn síðan í október eftir meiðsli.

Púllarar hömruðu járnið meðan það var heitt og tæpri mínútu síðar sendi Hugo Ekitiké Þjóðverjann Florian Wirtz í gegn og hann kom boltanum í netið með öðru skoti Liverpool á mark í leiknum. Wirtz að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Þrátt fyrir hörmulegt gengi eru Úlfarnir ekki dauðir úr öllum æðum. Úrúgvæinn Santiago Bueno minnkaði muninn eftir hornspyrnu snemma í síðari hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var ekki sá skemmtilegasti eftir það. Illa gekk hjá Liverpool að skapa sér færi en Úlfarnir sóttust eftir jöfnunarmarki á lokakaflanum.

Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og 2-1 úrslit leiksins. Úlfarnir því enn með tvö stig eftir tólfta deildartapið í röð.

Liverpool vinnur aftur á móti þriðja leik liðsins í röð og hefur spilað sex leiki án taps í deildinni. Liðið situr í fjórða sæti deildarinnar með 32 stig, þremur á eftir Aston Villa sem er sæti ofar.

Chelsea er þremur stigum á eftir Liverpool og kemst yfir Rauða herinn með sigri á Villaliðum á eftir vegna markatölu.

Aston Villa mætir Chelsea klukkan 17:30 í leik sem verður sýndur beint á Sýn Sport.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira